141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:09]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er eðlilegt að taka þetta mál upp vegna þess að rannsókn á efnahagsbrotunum, og því sem hugsanlega var saknæmt í því ferli öllu, verður að leiða til lykta. Þess vegna var ákveðið á árinu 2009 að setja embætti sérstaks saksóknara á laggirnar. Frá fyrstu tíð var vitað að þetta mundi krefjast verulegra fjárútláta úr sjóðum hins opinbera. Niðurstaðan varð sú að ætla til verkefnisins um 5 milljörðum króna. Það var ekki tímasett nákvæmlega hvernig verkinu yrði hagað, hvenær því yrði lokið, það var ekki vitað. En enn þá er unnið samkvæmt þessari áætlun. Það er svo að ef embættið klárar ekki þær fjárveitingar sem ætlað er á hverju ári, færist það yfir á komandi ár vegna þess að starfsemin er verkefnamiðuð. Hún miðar að því að ljúka þessari rannsókn og leiða hana til lykta. Þetta er eðlileg spurning. Ég tek undir það með hv. þingmanni að þessi mál þurfa að vera í góðu lagi. Ég vonast til að svo verði samkvæmt þeim tillögum sem hér liggja fyrir.