141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:14]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hann hefur gefið. Þau gefa tilefni til umræðu en ég ætla samt sem áður að halda mig við það sem brennur á mörgum og snýr að samgöngumálum. Svo að það sé nú bara sagt eins og það er þá snýr það að samgöngumálum í mínu kjördæmi. Það tengist að vísu öllum landsmönnum þar sem flestir þurfa að fara til Reykjavíkur.

Nú er það þannig, virðulegur forseti, að það er alveg sama hvaða mælikvarða við skoðum, umferðarslysin í þéttbýli eru langflest hér í Reykjavík. Það er alveg sama hvort það er skoðað hlutfallslega eða fjöldinn. Hér er langmesti fjöldinn, um 2.787 slys, þar af tvö banaslys, 44 alvarleg slys. Til að hafa einhvern samanburð á milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, miðað við íbúafjölda, þá er hlutfallið langhæst í Reykjavík, 2,3%. Næsta sveitarfélag er með 1,7% ef við setjum þetta bara upp í slíkt samhengi. Þannig að hér verða flest slys og hér verða alvarlegustu slysin. Hæstv. ráðherra hefur hins vegar ákveðið að hér verði engar framkvæmdir í umferðarmálum næstu 10 árin.

Það tengist líka öðru máli sem hæstv. ráðherra þekkir vel, það er Landspítalinn. Hæstv. ráðherra veit nákvæmlega jafn vel og ég að aðgangur umferðar að honum er ekki fullnægjandi, verður ekki fullnægjandi þegar við byggjum nýjan spítala. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki hvernig þetta á að koma heim og saman. Ég vil trúa því að hæstv. ráðherra hafi áhuga á umferðaröryggi. Hér eru flestu slysin og hér á ekki að gera neitt. Ég veit að hæstv. ráðherra er áhugamaður um að við veitum bestu heilbrigðisþjónustu í heimi, við gerum það ekki öðruvísi en að byggja nýjan spítala. Gert er ráð fyrir að hafa hann á þessum stað. Við þurfum betri aðgang fyrir umferð að honum. Á sama tíma samþykkir hæstv. ráðherra að fresta öllum framkvæmdum í Reykjavík hvað varðar umferðarmannvirki næstu tíu árin. Þetta gengur ekki upp. Það gengur ekki upp að segja: Ég legg áherslu á umferðaröryggismál og fresta svo framkvæmdum í Reykjavík um tíu ár. Það gengur ekki upp að segja: Ég vil hafa nýjan spítala á þessum stað og fresta gerð umferðarmannvirkja í Reykjavík um tíu ár.