141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:19]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég skil ekki af hverju hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningunni um aðgengi að spítalanum. Ég vil þó taka fram, af því að svolítið popúlísk umræða hefur verið um spítalann, að það breytir engu þótt hann yrði ekki byggður þarna eða eitthvað annað, að það þarf samt að bæta aðgengið.

Sá sem talar um Reykjavíkurborg og Houston í Texas í sömu andrá hefur þá ekki komið til þeirrar borgar. Ég þekki hana ágætlega, ég hef dvalið mikið í Houston í Texas og ég hvet nú menn til þess að fara ekki að bera saman umferðarmannvirkin þar og hér.

Slysin í Reykjavíkurborg og á þéttbýlisstöðum almennt eru á umferðarljósum. Þetta snýst ekki alltaf um að byggja dýr mannvirki. Þetta snýst um að greina hvar umferðarslysin eru og fara leiðir sem eru vel þekktar um allan heim. Við höfum svo sem beitt þeim hér á Íslandi líka til að koma í veg fyrir slys. Við skulum ekki tala eins og að menn muni hætta að keyra. Reyndar keyra menn almenningsvagna líka, þar geta einnig orðið slys. Slysum á hjólandi fólki hefur fjölgað alveg gríðarlega. Við þurfum því að huga að þessu alls staðar.

Hæstv. ráðherra getur ekki komið og sagt að hann leggi áherslu á umferðaröryggismál um leið og hann segir hér þar sem flestu og alvarlegustu slysin eru: Ég ætla ekki að gera neitt nema ráðast í almenningssamgöngur. Það er bara ekki sannfærandi. Ég ætla ekki að stoppa hæstv. ráðherra í að fara í almenningssamgöngur, ekki til í dæminu. Að ganga og hjóla er frábær leið til að ferðast en það þarf að vísu að fara að huga mjög að umferðaröryggismálum þar líka.

Ef hæstv. ráðherra ætlar að láta þetta ganga upp með nýja spítalann og umrædda staðsetningu, ef hann ætlar að vinna í (Forseti hringir.) umferðaröryggismálum verður að breyta um stefnu og hætta við þetta bann við framkvæmdum næstu tíu árin í Reykjavíkurborg.