141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:35]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Við gætum farið hér í langar umræður um láglendisleiðir á Vestfjörðum, í Gufudalssveitinni sérstaklega, en látum þær bíða betri tíma. Við erum sammála um að það eigi að reyna að finna hagkvæmustu leiðirnar. Ég er sjálfur ekki sannfærður um að óháð gróðrinum í Teigsskógi hafi sú leið endilega verið sú besta en við erum ekki að fara að ræða það hér og nú, heldur hvaða merkingu 6. gr. heimildin hefur varðandi húseignir í Reykjavík. Gert hefur verið ráð fyrir því að ráðast í skipulagsbreytingar hjá samgöngustofnunum, þar á meðal Vegagerðinni. Þá vilja menn hafa inni í dæminu þann möguleika að hægt sé að selja einhverjar húseignir, reisa nýjar, kaupa nýtt, sameina o.s.frv. þó að ég hafi lagt áherslu á að kerfisbreytingarnar eigi ekki að taka í einhverjum heljarstökkum, hvorki varðandi húsnæði, mannahald né starfsemi. Hins vegar fékk ég áskorun nýlega frá starfsmönnum Vegagerðarinnar þar sem þeir beindu því til Alþingis að leiða þetta mál til lykta eins fljótt og nokkur kostur er.

Varðandi Útlendingastofnun var það svo í frumvarpinu fyrir síðasta ár að hælisleitendur og starfsemi Útlendingastofnunar voru undir sama fjárlagalið. Nú hefur þetta verið greint í sundur. Við verjum umtalsverðu fjármagni til Útlendingastofnunar og erum að efla starfsemina að því leyti að við gerum ráð fyrir að fleiri starfsmenn verði ráðnir. Við gerum ráð fyrir tveimur nýjum starfsmönnum, lögfræðingum, á næsta ári og viljum efla starfið.

Varðandi hinn liðinn er erfitt að áætla hann vegna þess að við vitum aldrei hver (Forseti hringir.) fjöldinn verður á hverju ári. Þess vegna er það þáttur sem skýtur upp kollinum í fjáraukalögum á hverju ári í samræmi við þann veruleika sem við okkur blasir.