141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:38]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ef ég hef skilið hæstv. ráðherra rétt vill hann hafa þessa 6. gr. heimild inni ef hann skyldi koma enn eina ferðina með frumvörpin um Farsýsluna og Vegagerðina.

Varðandi Útlendingastofnun og hælisleitendur átta ég mig alveg á því að það er erfitt að áætla þann lið nákvæmlega. Ég geri heldur ekki athugasemdir við það. Í ljósi þess sem ég þykist fara nærri um, það kemur reyndar fram í frumvarpinu, tel ég víst að hælisleitendur á miðju þessu ári séu orðnir fleiri en á öllu síðasta ári þá komi hugsanlega beiðni í fjáraukalagafrumvarpinu um að hækka þann lið. Hæstv. ráðherra getur kannski staðfest það hér. Ég hefði talið eðlilegra og skynsamlegra að áætlunin væri sambærileg fyrir næsta ár. Ég tel mikilvægt að við reynum að hafa fjárlögin sem næst því sem við teljum standast. Ég átta mig samt fyllilega á því að suma liði er erfitt að áætla nákvæmlega.

Í upphafi umræðunnar var talað um svokallaða fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sem snýr annars vegar að uppbyggingu á fangelsinu og hins vegar ferjunni. Fjárfestingaráætlunin er ekki útfærð í frumvarpinu en það er stefnt að útfærslu við 2. umr. Hæstv. ráðherra sagði mjög skýrt áðan að frá því yrði ekki hvikað, hvorki að reisa fangelsið né smíða ferjuna, það væru þeir málaflokkar sem sérstaklega væru taldir upp í þessari fjárfestingaráætlun og ég spyr hvort ég hafi ekki alveg örugglega tekið rétt eftir því að ekki yrði hvikað frá því, hvorki að reisa nýtt fangelsi né endurnýja Herjólf?