141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferð hans hér. Ég fagna því að sjá að það er ekki lengur nein óvissa með styrkina í ferjurnar, þar á meðal Baldur. Þetta lítur allt vel út hérna. Mig langar hins vegar að spyrja hæstv. ráðherra út í styrki til innanlandsflugs. Þar er aukið töluvert og ég bið ráðherra að upplýsa mig um hugsunina þar að baki. Ég fagna því mjög ef markmiðið er að efla innanlandsflugið.

Mig minnir að hæstv. ráðherra hafi einhvern tímann komið inn á sóknargjöld til þjóðkirkjunnar í fjölmiðlum. Ef ég man rétt er talið að ríkið skuldi kirkjunni töluvert af fjármunum í því efni. Þá velti ég fyrir mér (Gripið fram í: Tvo og hálfan …) hvers vegna … Já, tvo og hálfan heyrist hér. Hvers vegna er ekki í þessu frumvarpi byrjað að standa skil á þessu gagnvart kirkjunni?

Þetta ætla ég að láta duga við þessa fyrstu yfirferð.