141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka ráðherra fyrir þessi svör. Ég hygg að hluti af kostnaðaraukningu í flugi stafi mögulega af ákvörðunum sem ríkisstjórnin hefur tekið um nýja skatta, kolefnisskatta og slíkt, þannig að það er kannski ekki bara heimsmarkaðsverðið sem hefur áhrif á kostnað flugrekendanna.

Varðandi flugið og af því að menn hafa talað aðeins í dag um öryggismál á höfuðborgarsvæðinu, langar mig að vekja athygli ráðherra á því að ef Reykjanesbrautin lokast til dæmis eða ef hér verða einhverjar hamfarir þannig að hvorugur flugvöllurinn nýtist, er næsti varaflugvöllur á Akureyri og þarf að fara yfir að minnsta kosti tvo fjallvegi til að komast þangað. Ég hygg að það væri skynsamlegt út af öryggisástæðum á höfuðborgarsvæðinu að kanna betur með varaflugvöll nær borginni.

Þá vil ég nefna að ég held að það sé mjög mikilvægt að ná samkomulagi við kirkjuna um það hvernig sóknargjöld verða reiknuð út til framtíðar og hvort og þá að hve miklu leyti eigi að (Forseti hringir.) bæta eða greiða til baka það sem virðist vera skuld.