141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:47]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það síðasta sem fram kom í máli hv. þingmanns, það er mikilvægt að halda þessari umræðu vakandi. Við byrjuðum á því að snúa dæminu við í fyrra, í fyrsta lagi með því að kortleggja stöðuna og kanna hvað fór úrskeiðis, því að það fór eitthvað úrskeiðis, það var ekki eðlilegt sem þarna gerðist. Við stöðvuðum þessa þróun og byrjuðum að snúa dæminu við með auknu framlagi. Ég sá líka til þess að í þessu frumvarpi varð ekki skerðing á framlagi til sóknargjalda.

Hins vegar hefur verið nokkuð deilt um það hvort rétt sé að láta sitja við það eitt að bæta sóknargjöldin upp samkvæmt verðlagi, eins og gert er um útgjöld til opinberrar starfsemi á vegum ríkisins almennt, eða hvort eigi að láta sóknargjöldin fylgja þróun tekjuskattsstofns sem upphaflega var ráðgert. Þetta er nokkuð sem þingið þarf að taka til skoðunar.

Ég er að reyna að muna hvað annað það var sem hv. þingmaður vék að í máli sínu, en kemur það ekki í hug í augnablikinu.