141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:49]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil fyrst lýsa ánægju minni með það fyrirkomulag sem hér er verið að kynna til sögunnar og þær umræður sem hafa átt sér stað á vettvangi hvers ráðuneytis um fjárlagafrumvarpið eins og það er lagt fram í dag. Mig langar af því tilefni að fara fyrst almennum orðum yfir stöðu umhverfismála. Ég held að það dyljist engum að fjárveitingar til málaflokksins eru hlutfallslega mjög litlar og í samanburði við nágrannalönd okkar eru framlögin lág. Þau eru til að mynda innan við 2% af heildarútgjöldum til ríkissjóðs í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2013. Þetta er eitthvað sem mun væntanlega taka breytingum inn í öldina, eðli málsins samkvæmt því málaflokkurinn er þess eðlis að hann mun vaxa. Hlutur umhverfismála fer sífellt vaxandi í umræðunni bæði innan lands og utan eftir því sem viðfangsefnunum fjölgar og almenningi verður ljósar hversu mikilvægt er að takast á við þau krefjandi málefni.

Þannig má segja að hlutur umhverfismála í þessu frumvarpi endurspegli í raun ekki vægi málaflokksins í almennri umræðu eða þann sess sem umhverfismálin hafa öðlast í vitund fólks á síðastliðnum árum. Umhverfismálin eru afar víðtækur málaflokkur. Þau ná yfir rannsóknir og nýtingu, umgengni við náttúruna á landi, hafi, vatni og lofti. Þau ná yfir náttúruvernd, þau ná yfir ráðstöfun auðlinda en líka yfir það hvernig við sem einstaklingar búum og þau áhrif sem umgengni okkar og lífsstíll, ekki bara við sem einstaklingar heldur líka atvinnulífið, hefur á umhverfið.

Fjárlagarammi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í frumvarpinu einkennist auðvitað af þeim markmiðum sem ríkisstjórnin hefur sett sér varðandi jöfnuð í ríkisfjármálum, þ.e. þau einkennast af aðhaldi og ráðdeild. Aðhaldsaðgerðir í fjárlagaramma umhverfis- og auðlindaráðuneytisins nema 1,5% af rekstrarveltu að raungildi og þær eru útfærðar eftir forgangsröð og áherslum ráðuneytisins og fela þess vegna í sér mismikla skerðingu.

Það er vert að taka fram að samsetning fjárlagaramma umhverfis- og auðlindaráðuneytisins er óvenjulegur að því leytinu til að 47% af fjárlagarammanum eru fjármögnuð með mörkuðum tekjum. Þar er um að ræða eftirtalda fjárlagaliði.

1. Ofanflóðasjóður sem er fjármagnaður af ofanflóðagjaldi.

2. Úrvinnslusjóður þar sem álagt úrvinnslugjald skal standa undir fjármögnun og förgun og endurvinnslu hvers vöruflokks sem undir sjóðinn fellur.

3. Mannvirkjastofnun en verkefni hennar eru fjármögnuð með byggingaröryggisgjaldi og gjaldi sem er lagt á rafföng og rafveitur.

4. Endurvinnslan hf. sem er rekin með umsýsluþóknun og skilagjaldi sem lagt er á einnota umbúðir.

5. Skipulagssjóður sem er fjármagnaður með skipulagsgjaldi sem er ætlað til að greiða hluta af kostnaði sveitarfélaga af aðal- og deiliskipulagsgerð.

Hins vegar eru 53% af fjárlagaramma ráðuneytisins fjármögnuð með beinu framlagi úr ríkissjóði. Í grófum dráttum má segja að breyting á fjárlagarammanum sé þannig að tímabundnar fjárveitingar sem falla niður nema um 918 millj. kr. Hins vegar er endurnýjað framlag til viðhaldsframkvæmda til Vatnajökulsþjóðgarðs sem nemur um 100 millj. kr., sem kemur á móti tímabundnu framlagi sem fellur niður. Það eru tímabundnar fjárveitingar til innleiðingar og endurskoðunar stefnu fyrir vistvæn innkaup sem er föst fjárhæð milli ára, 10 millj. kr. kr. til fjögurra ára. Gert er ráð fyrir 12,5 millj. kr. fjárveitingu til þriggja ára til að byggja upp sérfræðiþekkingu um umhverfisáhrif leitar og vinnslu olíu á hafi úti og undirbúa stjórnsýslu umhverfismála fyrir frekari athafnir á Drekasvæðinu og 3,1 millj. kr. hækkun áætlaðra tekna af gistináttagjaldi sem rennur til friðlýstra svæða í umsjón Umhverfisstofnunar.

Veittar eru sérstaklega 16,5 millj. kr. til rekstrar nýrrar náttúrustofu á Höfn í Hornafirði en það er sú náttúrustofa sem bætist við í fjölskyldu þeirra sjö sem fyrir eru og stóð alltaf til að bæta við og verður gert með þessu nýja framlagi. Náttúrustofan verður eins og aðrar í eigu sveitarfélaganna á svæðinu og munu þau leggja fram 30% framlag á móti. Hér er um að ræða opnun og rekstur á áttundu náttúrustofunni og jafnframt þeirri síðustu sem heimilt er að stofna til með rekstrarframlagi ríkisins samkvæmt lögum um náttúrustofur. Þar með er ákveðnu takmarki náð hvað þetta varðar og ég vonast til þess að vöktun á landsbyggðinni aukist og eflist þar með.

Aðrar breytingar felast í framlagi vegna nýrra laga sem voru samþykkt á Alþingi síðastliðinn vetur um viðskiptakerfi með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda þar sem verkefni Umhverfisstofnunar aukast umtalsvert.

Mér er ánægja að segja frá því að umhverfis- og auðlindaráðuneytið tók fyrir aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftlagsmálum frá 20. október 2010 sem sinn meginmálaflokk í kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð, en í skýrslu ráðuneytisins sem er hægt að nálgast á heimasíðu þess er sérstaklega talað um kynjasjónarmið þessarar aðgerðaáætlunar og kynjaáhrif greind.

Fjárlagafrumvarpið endurspeglar að aðeins litlum hluta þær nýju áherslur og verkefni sem færð voru til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins nú í september en þó munu færast til okkar landshlutaverkefni í skógrækt, verkefni sem heyra undir Veiðimálastofnun og umsýsla að því er varðar rammaáætlun.

Virðulegi forseti. Ég tek væntanlega aftur til máls undir þessum lið (Forseti hringir.) og svara þeim spurningum sem að mér verður beint.