141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:58]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni spurningar hans og áhuga á Þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt starf sem þar er unnið og ég deili áhuga þingmannsins hvað það varðar.

Varðandi 100 millj. kr. framlagið til Vatnajökulsþjóðgarðs er það framlag sem var tímabundið og er rétt að halda áfram því þar er um að ræða þjóðgarð sem er í vexti. Að vísu hefur sá vöxtur verið miklum mun hægari en við hefðum viljað sjá og miklum mun hægari en Alþingi lagði til til að byrja með. Við höfum í ljósi efnahagsþrenginganna hægt á uppbyggingu Vatnajökulsþjóðgarðs þrátt fyrir að þjóðgarðurinn hafi tekið breytingum og við hann hafi bæst umtalsverð landsvæði. En af þessum sömu sökum, þ.e. efnahagshruninu, hefur verið lítið um að hafist hafi verið handa við nýjar framkvæmdir. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull hefur liðið fyrir það rétt eins og svo fjöldamörg önnur verkefni sem hefði verið gott að geta hafið, ef ekki hefði verið viðskilnaður Sjálfstæðisflokksins. Það hefði verið gott að geta sýnt þessum þjóðgarði sóma eins og öðrum. Starfsfólk þjóðgarðsins hefur rækt sitt starf af mjög miklum áhuga og ég hef miklar taugar til þessa þjóðgarðs. Ég vænti þess að við getum í framhaldinu haldið áfram skoðun á möguleikunum á því að bæta í og ég vænti þess að ég eigi þar góðan liðsmann í hv. þingmanni.