141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[15:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem voru að mínu mati mjög dapurleg. Það stendur ekki til að gera neinar breytingar á því af hálfu ráðherrans eða ríkisstjórnarinnar að sýna Þjóðgarðinum Snæfellsjökli þá virðingu sem hann á skilið.

Hæstv. ráðherra segir: Vöxturinn í Vatnajökulsþjóðgarði var mun hægari en reiknað var með. Það getur vel verið að svo sé en vöxturinn í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli er enginn, akkúrat enginn. Það hefur aldrei komið stofnframlag inn í þann þjóðgarð, aldrei nokkurn tíma. Það sýnir vilja stjórnvalda á hverjum tíma.

Það er líka mjög sérkennilegt að við niðurskurð í þorskaflaheimildum 2007 var því einmitt frestað að fara í þá uppbyggingu sem til stóð vegna stöðu ríkissjóðs, sem allir skilja, en að þá skyldi vera haldið áfram að byggja upp á einum stað umfram annan er alls ekki sanngjarnt, virðulegi forseti.

Ég held að það væri líka óhætt fyrir hæstv. ráðherra að skoða það sem kom fram á fundum fjárlaganefndar í fyrra og ég tók upp í ræðustól, að setja Vatnajökulsþjóðgarð í það minnsta undir Umhverfisstofnun því að þannig mætti ugglaust hagræða helling og spara peninga.

Virðulegi forseti. Ég segi enn og aftur: Það er verið að verðlauna skussana. Það eru skýr skilaboð um það. Þeir sem fara ekki að lögum frá Alþingi og fara eftir þeim fjárheimildum sem þar eru veittar njóta forgangs þegar verið er að útdeila peningum aftur. Það væri íhugunarefni að skoða það mjög vandlega í hv. fjárlaganefnd að taka akkúrat þessa peninga, verði það niðurstaðan, og greiða upp skuldina sem var í árslok 2011 um 170 millj. kr. á meðan Umhverfisstofnun og starfsfólk Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls hafa alla tíð staðið við skuldbindingar sínar og farið eftir þeim heimildum sem Alþingi úthlutar þeim á hverjum tíma.

Ég lýsi yfir miklum vonbrigðum með það sem fram kemur og viðbrögð hæstv. ráðherra og tel mjög mikilvægt að fram fari heiðarleg og opin umræða um það hvort ekki eigi að bara að leggja niður Þjóðgarðinn Snæfellsjökul. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)