141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[15:02]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vona að við þurfum ekki að láta heift einkenna umræðuna hér. Kjarni málsins er sá að við þurfum að styrkja tekjugrunn til að sýna náttúruverndarsvæðum og þjóðgörðum almennilegan sóma á Íslandi, sem er sú auðlind sem sívaxandi ferðaþjónusta hvílir á. Það verður ekki gert með gífuryrðum í þingsal. Við þurfum að finna leiðir til þess að sú atvinnugrein sem byggir á þeirri auðlind sem náttúra Íslands er verði vaxandi. Það er nýtt fyrir okkur almennt að hugsa og tala um náttúru Íslands sem auðlind, þ.e. ósnortna náttúru Íslands, ekki virkjaða heldur ósnortna, sem grunn til að byggja á og auðlind fyrir ferðaþjónustuna.

Við í fjárlaganefnd, í umhverfis- og auðlindanefnd, í umhverfisráðuneytinu og annars staðar þurfum að vinna að því að finna þennan tekjugrunn þannig að sanngjarnt og skynsamlegt sé svo að sá ávinningur sem hlýst af þessari uppbyggingu skili sér til náttúrusvæðanna, bæði friðlýstra svæða og þjóðgarða, og til að við lendum ekki í þeim ógöngum að þarna verði átroðningur sem verði hugsanlega svo mikill að svæðin glati verndargildi sínu og verði þá ekki sá segull sem aðdráttaraflið snýst um.

Ég vænti þess að leiðin til að nálgast þessa umræðu sé ekki fólgin í einhverjum heitingum af því tagi sem hér hafa komið fram í máli hv. þingmanns heldur fremur sú að við reynum af yfirvegun og skapandi nálgun að finna lausn á þessu efni. Ég held að næsta viðfangsefni hljóti að vera að sýna þessum verkefnum þann sóma að þau snúist ekki um 1 milljón eða 2 heldur snúist þau um raunverulegt framlag til uppbyggingar og utanumhalds þessara svæða.