141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[15:08]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þátt í þessu ágæta samtali. Fyrst varðandi nýtt umhverfis- og auðlindaráðuneyti þá er það rétt sem kemur fram í máli þingmannsins að farið hefur fram yfirgripsmikil endurskipulagning ráðuneytisins í ljósi breyttra og víðtækari verkefna og má segja að þar sé faglegum málefnum skipaður ríkari sess en áður var þar sem komin er sérstök skrifstofa landgæða, önnur skrifstofa hafs, vatns og loftlags og sú þriðja sem lýtur að umhverfi og skipulagi. Þarna erum við að tala um verulega faglega styrkingu sem endurspeglast líka í því að auglýst hefur verið eftir nýjum skrifstofustjóra. Í framhaldinu þarf svo að byggja upp ráðuneytið með hliðsjón af þessum nýju verkefnum og sérstaklega því sem varðar sjálfbærni, viðmið og þau sjónarmið og þá þekkingu sem þarf að efla að mun.

Það er dálítill tími, eins og hv. þingmaður nefndi, síðan fjárlagafrumvarpinu var lokað þannig að ég vænti þess að við lokaafgreiðslu fjárlaga sjái þess betur stað að við erum að tala um eflt og styrkara ráðuneyti. Ég fagna hins vegar liðsauka hans og metnaði í þágu nýs umhverfis- og auðlindaráðuneytis og því að hann vilji hafa þar sem flestar stofnanir og víðtækust verkefni. Ég get ekki annað en fagnað því.

Það er sannarlega rétt að lífríki hafsins er meðal mikilvægustu auðlinda okkar og í hafrannsóknum þarf vissulega að stilla saman strengi, allt frá sjálfbærni, rannsóknum og ráðgjöf yfir í ráðstöfun náttúrugæða og aflaheimilda. Þarna erum við að gera tilraun með samstarf milli umhverfis- og auðlindaráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, þ.e. í stjórn Hafrannsóknastofnunar, sem ég hef miklar væntingar til og verður spennandi að sjá hvernig þróast.