141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[15:15]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir innlegg hennar. Ég ætla að byrja á sama stað og hún lauk máli sínu í sambandi við úrskurðarnefndina sem hér var til umræðu. Það er rétt sem hér hefur komið fram að teknar hafa verið fyrir í þinginu og ræddar tafir sem hafa orðið á störfum úrskurðarnefnda, meðal annars skipulags- og byggingarmála, og þar hefur málshraði af ýmsum ástæðum verið óviðunandi. Að mati allra, held ég, sem um þessi mál hafa fjallað á vettvangi þingsins hefur verið samstaða um að það þyrfti annars vegar að vinna á halanum eins og hér hefur verið nefnt og hins vegar að tryggja það að hin nýja úrskurðarnefnd hafi nægt fjármagn til að sinna hlutverki sínu. Ég fagna því í sjálfu sér að ráðherra hafi lýst því yfir að þessi mál yrðu endurskoðuð. Ég held að gríðarlega mikilvægt sé að tryggja það að úrskurðarnefnd af þessu tagi hafi nægt fjármagn til að sinna störfum sínum af mikilli fagmennsku en um leið á eðlilegum hraða þannig að það verði ekki vegna mannfæðar, fjárskorts eða einhverra slíkra ástæðna tafir sem hægt væri að komast hjá á niðurstöðum sem geta varðað mjög mikla hagsmuni fyrir einstaklinga, fyrirtæki, sveitarfélög og allan almenning. Þetta eru mjög viðkvæm mál sem verið er að fjalla um og eins og hæstv. ráðherra nefndi eru núningsfletirnir í umhverfislöggjöfinni ansi margir. Kæruleiðirnar eru margar og mikilvægt að niðurstaða náist fyrir þá aðila sem í hlut eiga á sem skemmstum tíma en um leið að fyllstu fagmennsku og allra réttra stjórnsýslureglna sé gætt. Og það kostar pening.

Það að málafjöldi sé mikill hjá úrskurðarnefnd af þessu tagi getur, eins og í þessu tilfelli, stafað af því að löggjöfin sé flókin og núningsfletirnir margir og löggjafinn sem setur hinar flóknu reglur með mörgum núningsflötum verður þá að viðurkenna það, axla ábyrgð í því sambandi með fjárveitingum til málaflokksins í samræmi við það.

Ég ætla að láta þetta nægja að öðru leyti en því að ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra hvað varðar þátt svonefndra IPA-styrkja í fjárveitingum til stofnana á vegum ráðuneytisins, hvort hæstv. ráðherra getur upplýst okkur um það.