141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[15:21]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er von mín eins og hæstv. ráðherra að tilefnum til kæra muni fækka, en um það vitum við ekki neitt á þessu stigi. Við verðum við fjárlagaumræðuna eða fjárlagameðferðina í þinginu að taka mið af veruleikanum eins og hann er. Ég hygg að þar þurfi að bæta í hvað þennan lið varðar ef fram fer sem horfir. Hvað mun síðan gerast í fjarlægari framtíð getur ekkert okkar sagt um nú, en ég held að við þessa fjárlagaafgreiðslu þurfi að horfa á þennan lið. Þótt ekki sé um að ræða háar fjárveitingar eða mikinn kostnað í samhengi fjárlaganna þegar horft er á þennan lið, þá geta þarna verið undir mjög miklir hagsmunir fyrir sveitarfélög, ríkisvaldið, fyrirtæki, einstaklinga og fyrir allan almenning, miklir hagsmunir sem tengjast því einmitt að málshraðinn sé í lagi.

Ég þakka ráðherra fyrir svarið um IPA-styrkina en ég velti fyrir mér, af því að nú hafa IPA-styrkir verið lengur á fjárlögum, hver staða þeirra er. Hefur ráðherra svör á reiðum höndum um hvað búið er að verja miklu fé á forsendum IPA-styrkja nú þegar? Allt gott um það að segja sem er á fjárlögum fyrir næsta ár en ég hugsa um árin 2011 og 2012.

Síðan var ég að velta fyrir mér öðrum lið sem ég skildi ekki alveg þegar ég kynnti mér kafla umhverfisráðuneytisins í fjárlagafrumvarpinu. Það eru tilfærslur sem varða ofanflóðasjóð. Þar er gert ráð fyrir 400 millj. kr. lægri útgjöldum og þar er um að ræða verulegan hluta af einhverri aðhaldskröfu sem ráðuneytið er að bregðast við. (Forseti hringir.) Ég velti fyrir mér, þýðir þetta að ofanflóðasjóður muni ráðstafa 400 millj. kr. lægri upphæð eða er þetta einhvers konar (Forseti hringir.) bókhaldsatriði hvernig þetta er fært?