141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[15:26]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir inngangsorð hennar og eins fyrir þá ágætu umræðu sem varð áðan um hlutverk og nýskipan umhverfis- og auðlindaráðuneytis í kjölfar þeirra stjórnkerfisbreytinga sem orðið hafa að undanförnu með fækkun og sameiningu ráðuneyta, breytinga sem hafa það markmið að efla afmörkuð stjórnsýslustig og samþætta það sem er til þess fallið og skerpa á verklagi.

Ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra um afmarkaðra mál sem lýtur að nýlegum lagabreytingum og áhrifum þeirra. Síðasta vor var gerð breyting á lögum um upplýsingaskyldu í umhverfismálum þar sem ráðuneytinu og undirstofnunum þess ber nú skylda til að taka frumkvæði að upplýsingagjöf til almennings í umhverfismálum einkum þegar vá eða mengunarhætta er fyrir dyrum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort nú þegar séu merkjanleg eða fyrirsjáanleg áhrif þessarar löggjafar á starfshætti, mannafla eða rekstrarkostnað á málasviði ráðuneytisins. Hefur þetta einhverju breytt fyrir stofnanir ráðuneytisins í reynd?

Ástæðan fyrir spurningunni er sú að lagabreytingin er auðvitað mikil réttarbót fyrir íslenskan almenning en þegar hún var gerð var ekki að fullu vitað hvort hún hefði íþyngjandi áhrif fyrir viðkomandi stjórnsýslustofnanir, til dæmis fjárhagslega og varðandi mannafla. Ég vil spyrja ráðherrann um þetta.

Síðan er annað mál sem mig langar líka að nefna við ráðherrann og fá viðbrögð hennar við og það er tilraunaverkefni með strandsvæðaskipulag sem var hleypt af stokkunum árið 2009. Þá var farið í verkefni sem nefndist Nýtingaráætlun fyrir strandsvæði Vestfjarða. Fjórðungssamband Vestfirðinga, Teiknistofan Eik og Háskólasetur Vestfjarða tóku það verkefni að sér með fjárhagslegri aðkomu ríkis, sveitarfélaga og tiltekinna sjóða. Í því verkefni átti að horfa sérstaklega til skipulags Arnarfjarðar en við vitum að undanfarin ár hefur sú umræða orðið áleitnari að taka upp skipulagsvinnu vegna nýtingar hafsvæða við strendur landsins þar sem tengsl byggðar við sjóinn eru sterk og nýting strandsvæðisins fjölbreytt, til dæmis aukið álag og aukin ásókn í nýtingu strandsvæða með auknu fiskeldi og jafnvel ferðamennsku alveg eins og við sjáum á miðhálendi Íslands. Verklag sem þetta, þ.e. að skipuleggja slík svæði, ætti að geta stuðlað að nýsköpun á sviði umhverfis og auðlindastjórnunar á strandsvæðum. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvernig hún sér fyrir sér framtíðina í því efni og hvort uppi séu áform um að þróa strandsvæðaskipulag sem þetta víðar og færa það út fyrir þessi mörk.