141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[15:29]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Fyrst aðeins um nýlegar lagabreytingar sem hv. þingmaður nefndi sérstaklega varðandi upplýsingaskylduna. Því er til að svara að við gerum ráð fyrir að þær endurspeglist í forgangsröðun stofnunarinnar eða þeirra stofnana sem um ræðir, en að sjálfsögðu er það þannig með þessa lagabreytingu eins og aðrar að það er eðlilegt og skylt að fylgjast vel með því hvaða breytingar þær útheimta síðan eftir því sem framkvæmdinni vindur fram.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður um strandskipulagsverkefnið fyrir vestan. Því er til að svara í fyrsta lagi að þarna er um að ræða verkefni sem var skilgreint sérstaklega undir sóknaráætluninni 20/20 og er undir því verkefni ráðstafað sérstökum fjármunum til Veðurstofu Íslands, 6 millj. kr. til eins árs til að halda utan um það verkefni í framhaldinu.

Hins vegar er mikilvægt að halda því til haga að hafin er vinna varðandi skipulagsmál hafsins í heild, og þá bæði strandsvæða og hafsins, undir flaggi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins enda kom í ljós þegar við nokkur ráðuneyti létum skoða það hvernig þeim málum væri fyrir komið í stjórnsýslunni að það eru ellefu stofnanir og fjögur ráðuneyti sem koma með einhverju móti að ráðstöfun lands og sjávar af svo má að orði komast þannig að þarna var veruleg þörf á tiltekt. Og ég vænti þess að við sjáum frumvarp líta dagsins ljós í kjölfarið og þá verði þessi verkaskipting líka skýrari en þarna er auðvitað um að ræða verkefni sem hlýtur að endurspeglast líka í miklu samstarfi sveitarfélaganna og ríkisins.