141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[15:31]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra hennar ágætu svör. Ég fagna því að hafin er vinna við þau skipulagsáform sem lúta að strandsvæðunum og að horft sé víðar en að þessu tiltekna verkefni sem ég gat um. Mig langaði að forvitnast í framhaldinu um það hjá hæstv. ráðherra hvort áform væru uppi um að taka upp slíka skipulagsvinnu í tengslum við nýtingu og skipulag miðhálendisins.

Þá fagna ég því líka að heyra varðandi lagabreytinguna um upplýsingalögin að hún útheimti ekki þau miklu fjárútlát og þann þunga bagga sem spáð var í vor að mundi hljótast af þeirri lagabreytingu. Um var að ræða mjög einfalda réttarbót fyrir íslenskan almenning, þýðingarmikla bót sem þó átti ekki að kosta miklu meira en vilja og skipulagningu innra verklags hjá ráðuneytinu og stofnunum. Ég gleðst yfir því að það hafi gengið eftir og að ráðherrann geri jafnframt ráð fyrir að eftir því sem fram vindur þurfi hugsanlega að bæta við einhverjum fjármunum eða atgervi inn í það verkefni en þó sé það ekki of íþyngjandi.

En mig langaði að heyra aðeins nánar um frekari áform varðandi skipulag miðhálendisins.