141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[15:37]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningar hans og vangaveltur. Við höfum nokkrum sinnum átt orðastað um nákvæmlega þessi mál sem ég tek undir að eru hjartans mál okkar beggja.

Fyrst aðeins um ráðuneyti umhverfis- og auðlindamála. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að enn er töluverð skörun milli þeirra verkefna sem þar eru á ferðinni. Við höfum ekki skorið skýrt á milli annars vegar rannsóknar- og ráðgjafarstofnana og hins vegar nýtingar- og ráðstöfunarstofnana, ef svo má að orði komast, enda er þetta samfella. Það verður auðvitað að vera þannig að sjálfbær þróun og rannsóknarráðgjöf séu undirstaða ákvarðana um úthlutun eða ráðstöfun hvaða auðlinda sem er.

Við gerum nokkuð áhugaverða tilraun, eða það er það sem við leggjum upp með, sem er sameiginleg aðkoma umhverfis- og auðlindaráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis að stjórn Hafrannsóknastofnunar. Það fellur ekki alveg undir þá aðskilnaðarstefnu sem Stjórnarráðið hefur yfirleitt einkennst af heldur er miklu frekar um að ræða formlegan og skýran vettvang til samráðs um mikilvægar ákvarðanir og það er það sem við hyggjumst gera.

Varðandi Orkustofnun þá þarf að fara fram sérstök skoðun á verkefnum og því sem Orkustofnun sinnir. Sú skoðun leiðir væntanlega í ljós hver niðurstaða mála verður þar varðandi þessi tvö ráðuneyti.

Varðandi síðan þessar stóru spurningar um framtíð mannkyns og þróun markaðar með losunarheimildir þá virðist sem nákvæmlega það kerfi sem upp hefur verið tekið þjóni ekki markmiðunum nákvæmlega eins vel og menn höfðu væntingar um. Það á eftir að sanna sig og sýna að það dugi til þeirra markmiða sem til var stefnt. Við erum (Forseti hringir.) þátttakendur í því og ég vona auðvitað að það verði til gæfu fyrir náttúruna og umhverfið til framtíðar en enn eru stór spurningarmerki á lofti.