141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[15:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það er athyglisvert að hæstv. ráðherra auðlinda- og umhverfismála á Íslandi hefur miklar efasemdir um hvað heimurinn er að gera til að berjast gegn koltvíoxíðslosun sem er þegar farin að hafa töluvert mikil áhrif. Hún efast sem sagt um að þetta geri gagn. Ég held að við ættum að vinda okkur í að setja þennan markað í gang og setja miklu meiri kraft í hann en hér er gert ráð fyrir með tveimur stöðugildum og líta til þess að þetta er tekjuöflun ríkissjóðs.

Þá langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra: Hvar eru tekjurnar af auðlindasölunni sem metið var að gæfi 600 milljónir á síðasta ári, hvar eru þær í fjárlagafrumvarpinu?

Síðan varðandi þessa aðskilnaðarstefnu og samfellu og að láta sig dreyma um að tveir herrar geti stýrt Hafrannsóknastofnun. Það verður mjög athyglisvert þegar kemur að því að veita heimildir til aukningar á þorskafla og öðru slíku. Mín reynsla er sú að þegar maður horfir á tvo bílstjóra stýra sama bílnum stoppar bíllinn yfirleitt. Það er ekki gæfulegt að hafa tvo herra til að stýra einni stofnun.

Svo kemur að því að Orkustofnun mun stunda rannsóknir á olíuleit. Hér situr meira að segja hæstv. utanríkisráðherra sem hefur titlað sig sem olíumálaráðherra Íslands. (Utanrrh.: Þið kynntuð mig þannig.) Ég hélt að það hefði komið frá honum sjálfum. Það er athyglisvert hvort verður ofan á hjá hæstv. ráðherra auðlindamála þegar hann á að fara að samþykkja olíuleit Orkustofnunar og hvernig þau mál fara. Ég er ansi hræddur um að sá bíll muni stoppa algerlega þegar tveir bílstjórar fara að stýra, annars vegar iðnaðarráðherra sem vill bora og hins vegar umhverfisráðherra sem vill ekki bora.