141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[15:47]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna um líðan mína. Hvað ofanflóðasjóð varðar er það hárrétt að hann er sjóður sem settur var saman að gefnu og mjög alvarlegu tilefni á sínum tíma og honum er gert að ljúka tilteknu verkefni. Sem betur fer sáum við fljótlega fyrir endann á því. Ég er því miður ekki með verkáætlunina fyrir framan mig en það fækkar á listanum þannig að við göngum mjög öruggum skrefum á þau verkefni sem hér eru annars vegar. Á árinu 2013 ætti að vera um að ræða mjög myndarlegar framkvæmdir vegna sjóðsins.

Vegna þess að hv. þingmaður nefnir sjóflóð og stöðuna víða á ströndum landsins og þá kannski sérstaklega á Suðurlandi, þá kom upp mjög gagnleg umræða í þinginu í fyrra þegar við sóttum okkur heimild með lagabreytingu, ef svo má segja, í ofanflóðasjóð til að styðja við byrjun á kortlagningu á náttúruvá fyrir Ísland í heild, þ.e. langt inn í framtíðina. Þar var um að ræða 20–30 ára verkefni sem snerist um að kortleggja mögulega náttúruvá vegna nánast allra mögulegra náttúruhamfara; eldgosa, jarðskjálfta o.s.frv. á Íslandi. Menn bentu á þá staðreynd í kjölfar Eyjafjallajökulsgossins og fleiri náttúruhamfara sem dunið hafa yfir hér á landi að við erum sums staðar mjög vanbúin hvað varðar áætlanagerð um tilteknar tegundir náttúruvár og þá kannski sérstaklega alvarleg eldsumbrot í nágrenni byggðar. Við erum byrjuð á verkefninu en það er langtímaverkefni til 20–30 ára með aðkomu fjölmargra aðila. Ofanflóðasjóður er að mörgu leyti hugmynd eða módel til að nálgast verkefni af þessu tagi. (Forseti hringir.) Af því að hv. þingmaður spurði sérstaklega um líðan mína þá líður mér afar vel að hafa með ofanflóðasjóð að gera vegna þess að hér er um að ræða gagnlegt og gott verkefni.