141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[15:50]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef náð að afla mér í dag — ég hef nú ekki legið mikið yfir þessu — er á áætlun fram til 2016 gert ráð fyrir áframhaldandi framkvæmdum í Fjarðabyggð, á Ísafirði, í Fjallabyggð og Vesturbyggð. Ef framkvæmdir verða svipaðar á hverju ári eins og verið hefur í ár og áætlað er á næsta ári fara kannski um 2 milljarðar á ári í þessar framkvæmdir og eitthvað um 8 milljarðar á þessum fjórum árum, en síðan eru aftur tekjurnar þær sömu, tæpir 2 milljarðar á ári [Kliður í þingsal.] — frú forseti, ef hv. þingmaður vildi gera svo vel að gefa mér tóm til að ræða við ráðherrann en taka ekki tíma minn til þess og nota hann sjálfur.

Erindi mitt var að benda á að þó að framkvæmdaáætlunin gengi öll eftir eins og verið hefur gengur aldrei á þessa 10 milljarða heldur bætist bara á þá vegna þess að vaxtatekjurnar bætast allar við. Mér finnst mjög mikilvægt það verkefni sem hæstv. ráðherra nefndi um áhættumat og gerð áætlunar þar um. En ég velti því fyrir mér hvort við höfum efni á því í reynd að láta þetta fé standa allt óhreyft í Seðlabankanum á tímum sem þessum þegar við höfum svo sannarlega nóg við slíka fjármuni að gera í öðrum verkefnum sem varða einmitt, eins og hæstv. ráðherra nefndi, náttúruvá og fyrirbyggjandi aðgerðir og eins viðgerðir vegna náttúruhamfara og skaða.