141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[15:52]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Svo því sé til haga haldið þurfum við væntanlega á öllum þessum peningum að halda til að ljúka verkefninu en vegna þess að þarna er um að ræða markaðar tekjur munum við sjálfsagt ljúka innheimtunni þegar þarna er komið sögu og þá hefur sjóðurinn lokið hlutverki sínu.

Ég hlustaði á það sem hv. þingmaður sagði og þar komu fram mikilvæg sjónarmið en eigi að síður er þarna um að ræða markaðan tekjustofn ríkisins sem ætlað er að ráðstafað verði til tiltekinna þátta. Mér hefur þótt það mikilvægt í grunninn þegar um er að ræða það trúnaðarsamband sem ætti að vera milli stjórnvalda og skattgreiðenda að þegar stofnað er til tekjugrunns eins og þarna er gert fari sá grunnur til þeirra verkefna sem lögin kveða á um til að byrja með og sé ráðstafað í þágu þeirra verkefna sem lagt er upp með.