141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[15:53]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hæstv. umhverfisráðherra sagði áðan að hún væri ánægð þegar hún stæði frammi fyrir þinginu með fjárlagafrumvarpið vegna þess að hún teldi að þetta væri gott frumvarp fyrir málaflokk hennar. Ég get tekið í sama streng. Ég hef satt að segja aldrei verið jafnánægður með nokkurt fjárlagafrumvarp eins og þetta.

Ég tel að þingið ætti líka að vera ánægt vegna þess að í þeim kafla sem lýtur að utanríkismálum er tekin upp stefna og samþykkt þingsins í ákaflega mikilvægum málaflokki sem eru þróunarmálin. Eins og menn muna samþykkti Alþingi einróma sérstaka áætlun á sínum tíma og herti frekar á en hitt varðandi þá tillögu sem ég lagði fyrir þingið. Það kemur fram í þessu fjárlagafrumvarpi.

Utanríkisráðuneytið eins og önnur ráðuneyti hefur að sjálfsögðu ekki farið varhluta af þeim erfiðleikum sem dunið hafa yfir íslenskt samfélag í kjölfar hrunsins. Við höfum staðið við skuldbindingar okkar gagnvart niðurskurði, ég þarf ekki að rifja það upp hér, en á sínum tíma, árið 2009, var skorið niður hjá því ráðuneyti um 29% miðað við fjárlögin árin þar á undan, 2010 um 16% og síðan 11% í fyrra. Allt er það sjálfsagt og skylt en það hefur samt sem áður leitt til þess að umsvif ráðuneytisins hafa minnkað töluvert. Í þessum sölum hafa verið gerðar stríðar og eðlilegar kröfur til þess að aðhald væri sýnt, meðal annars gagnvart sendiráðum, bæði fjölda þeirra og sömuleiðis fjölda starfsmanna í sendiráðunum. Rétt er að rifja það upp að á undanförnum árum hefur sendiráðum verið lokað á þremur stöðum. Sömuleiðis er rétt að rifja upp að útsendum starfsmönnum hefur fækkað verulega á síðustu árum, eða frá því að þeir voru flestir, úr 70 niður í 53. Nú er svo komið að samkvæmt okkar tölum er helmingur sendiskrifstofa undirmannaður samkvæmt skilgreiningu, þ.e. er með tvo eða færri útsenda starfsmenn. Vitaskuld hefur álagið á starfsfólk sendiráðanna aukist sem því nemur. Ég verð að segja það fyrir mína parta að ég dreg í efa að það sé rétt stefna en eigi að síður var það nauðsynlegt tímabundið og við skulum svo sjá í framtíðinni hvert horfir í þessum efnum. Ég tek það alveg sérstaklega fram að ég er ekki að mæla fyrir því að fjölga sendiráðum en þó vil ég segja það hér að ég tel að kominn sé tími til að við skoðum út í hörgul hvort rétt sé að skoða þá tillögu sem við samþykktum árið 2010 og kom frá Vestnorrænu þingmannanefndinni um að opna sendiskrifstofu í Grænlandi. Á þeim tíma tjáði ég þinginu að það væri ekki fært sökum þeirrar fjárhagsstöðu sem uppi var en án þess að gerð sé tillaga um það í fjárlagafrumvarpinu tel ég að það sé mál sem þingið eigi að skoða aftur vegna aukinna samskipta okkar við Grænland og aukins mikilvægis norðurslóða.

Ég sagði að við hefðum tekið okkar skerf af niðurskurði og er rétt að fram komi að ef ég ætti sjálfur að dæma verk mín tel ég að mér hafi orðið á mistök þegar ég tók þátt í því með þinginu og ríkisstjórninni að skera verulega niður framlög til þróunarmála. Ég tel eftir á að hyggja að það hafi verið röng ákvörðun. Ég hef sagt það áður í þinginu.

Umfangsmesta breytingin sem gerð er í fjárlagafrumvarpinu er hækkun á framlögum Íslands til þróunarmála um ríflega 1 milljarð kr. Hækkunin er í samræmi við ályktun Alþingis um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu 2011–2014, samþykkt einróma í þinginu. Þar er gert ráð fyrir því að framlögin hækki á tímabilinu 2011–2014 úr 0,21 í 0,28% af vergri landsframleiðslu og að á næsta fjárlagaári fari þau upp í 0,25%. Það er nákvæmlega eins og mælt er fyrir í ályktun Alþingis.

Vegna þess að þingið hefur líka lagt sérstaka áherslu á að kynjasjónarmiða sé gætt vil ég að það komi skýrt fram að við létum gera greiningu á þessum stærsta útgjaldaflokki utanríkisráðuneytisins. Þá kemur í ljós að framlög sem stuðla að jafnrétti kynja og valdeflingu kvenna eru núna nánast 80% af öllum verkefnum sem undir málaflokkinn falla og hafa aukist um 8% frá því að það var síðast mælt.

Ég nefndi norðurslóðir áðan og ætla ekki að ræða frekar um áhuga minn á því að tengjast Grænlandi sterkari böndum. Mér finnst hins vegar vert að geta þess að í fyrra var í fyrsta skipti sérstakur fjárlagaliður beinlínis til að sinna norðurslóðum og hann er áfram inni. Einnig er áfram inni sérstök fjárveiting til norðurslóðasamstarfs sem er hluti af sóknaráætlun og tengist Norðurlandi en jafnframt eru líka veittar 11 millj. kr. til að taka þátt í starfsemi alþjóðlegrar skrifstofu Norðurskautsráðsins í Tromsø.

Af því að hér eru þingmenn sem hafa sérstakan áhuga á IPA-styrkjum vil ég segja það fyrir fram til að spara mönnum sporin að við höfum fengið slíka styrki til Þýðingamiðstöðvar og þeir munu samtals nema um 4,5 millj. evra. Þar er um þrjá samninga að ræða sem ég hef áður farið yfir gagnvart þinginu.

Í lokin, frú forseti. Hluti af þeirri áherslu sem er að finna í frumvarpinu er framhald af þeirri áherslu sem þingið hefur lagt gagnvart Palestínu. Við verjum nú 185 millj. kr. í ýmiss konar stuðningsverkefni við Palestínu. Þeim peningum er vel varið og ég tel að það sé algerlega í samræmi við þá ályktun sem Alþingi samþykkti á sínum tíma gagnvart fullveldi Palestínu.