141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[16:06]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Vegna þess sem hæstv. ráðherra sagði um kaupin á sendiherrabústaðnum er það svo að 6. gr. heimildin er opin og verði hún samþykkt er það ráðherrann og ráðuneytið sem tekur ákvörðunina árið 2013. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að þessi gögn komi fram þannig að við getum tekið markvissa og efnislega umræðu um þetta.

Hæstv. ráðherra vitnaði til fyrirspurnar í þinginu um kostnaðinn í sumum ráðuneytum og nefndi sérstaklega sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Það kom fram á fundi fjárlaganefndar að ef rétt væri farið með, hefði á þeim tíma þurft að vera á milli 40 og 50 millj. kr. kostnaður í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu vegna þeirra starfsmanna sem voru að sinna þessu. En það hefur verið — reyndar ekki hjá hæstv. utanríkisráðherra — ákveðinn feluleikur hjá einstaka ráðherrum við að viðurkenna þennan kostnað. Það er auðvitað mikilvægt að það sé ekki einn maður í hálfu starfi, það er ekki þannig. Þess vegna spurði ég eftir þessu hjá hæstv. ráðherra. Það er reyndar þannig í málaflokknum núna undir þessu nýja ráðuneyti, atvinnuvegaráðuneytinu, að þar er einmitt verið að leggja niður tímabundna heimild sem snýr að umsókn að Evrópusambandinu þó svo að ekki sé búið að opna kaflana. Það er því alltaf þessi ákveðni feluleikur í gangi, sérstaklega hjá hæstv. ráðherrum Vinstri grænna, við að reyna að fela kostnaðinn. Það er ekki hægt að saka hæstv. utanríkisráðherra um það, en þetta eru bara staðreyndir málsins. Þess vegna kalla ég eftir þessu.

Ég fagna því sem hæstv. ráðherra segir um að hann muni koma gögnum til okkar í hv. fjárlaganefnd um þessar hugmyndir um að kaupa bústaðinn og hætta að borga leigu, þannig að það sé hægt að fara yfir það rétt og efnislega og án upphrópana.