141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[16:08]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Ég skil mál hv. þingmanns þannig að jafnvel þó að ráðherrann hafi þá heimild sem hann vísaði í, telji hv. þingmaður það æskilegt og eðlilegt, áður en hún væri nýtt, að það væri lagt fyrir fjárlaganefnd á hvaða rökum hún verði veitt. Mér finnst það fullkomlega eðlilegt.

Mig minnir til dæmis að það hafi verið hv. þm. Kristján Þór Júlíusson sem færði ágætisrök fyrir því að menn ættu að skoða hvort það kynni að vera hagstæðara að leigja í tilteknu landi en kaupa þegar umræður voru uppi um það. Og svo það komi skýrt fram þá er ekki búið að kaupa neitt húsnæði í New York og að því er ég best veit er ekkert sérstakt húsnæði í sigti.

Ég vil svo bera hönd fyrir höfuð félaga minna í ríkisstjórninni. Mér finnst það með ólíkindum að hv. þingmaður skuli bera þá töluverðum sökum þegar þeir eiga ekki kost á því að verja sig. Þá er það ánægjuefni fyrir utanríkisráðherra að gerast skjöldur þeirra og jafnvel sverð. Ég tel ekki að það sé hægt að halda því fram sem hv. þingmaður sagði. Og til þess að segja hlutina eins og þeir eru, þá veit hv. þingmaður að fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er einhver harðasti andstæðingur ESB í þessum sölum. Hefði hann haft eitthvert tilefni til að reyna að fela kostnað? Nei. Hann var spurður í formlegri fyrirspurn af einum af þingmönnum stjórnarandstöðunnar og hann svaraði svona sem ég rakti. Mér þótti eins og hv. þingmanni svarið með ólíkindum. (Forseti hringir.) Ég tel ekki að umfangið svari hálfum starfsmanni, ég tel að það sé töluvert meira. En þetta var svarið.

(Forseti (RR): Það er ólag á klukkunni þannig að forseti hyggst slá í bjöllu þegar þingmenn eiga um það bil 15 sekúndur eftir af ræðutíma sínum.)