141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[16:10]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég byrja á sama stað og hæstv. ráðherra hætti, varðandi Evrópusambandsumsóknina og aðildarviðræðurnar. Ég sé ekki betur á fjárlagafrumvarpinu en að gert sé ráð fyrir lægri kostnaði vegna þeirra viðræðna en áður hefur verið gert. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra, og er ég þá ekki að spyrja hann um milljónir til eða frá: Er beinn kostnaður vegna þessarar umsóknar og þessa ferils alls lægri en menn gerðu ráð fyrir? Við vitum auðvitað að heilmikill kostnaður felst í störfum embættismanna víða í stjórnkerfinu, en ég vildi fá mat hæstv. ráðherra á því hvernig þessu háttar.

Ég sé að meðal annars er verið að lækka framlög til Þýðingamiðstöðvarinnar í tengslum við störf hennar vegna Evrópusambandsumsóknarinnar. Ég vildi spyrja: Er þetta ódýrara en hæstv. ráðherra gerði ráð fyrir í upphafi? Erum við að fara léttar út úr umsóknarferlinu fjárhagslega en hæstv. ráðherra gerði ráð fyrir eða lendir kostnaðurinn einfaldlega einhvers staðar annars staðar?

Ég ætla ekki að blanda mér í umræður um sendiherrabústaðina, ég tek bara undir það sem hér hefur komið fram að þó að heimildin í 6. gr. fjárlaga sé mjög opin hvað varðar sendiherrabústaði er full ástæða fyrir ráðherra til að kynna það sérstaklega fyrir fjárlaganefnd hvaða ákvarðanir eru teknar í þeim efnum. Reynslan sýnir að þarna er um umtalsverðar fjárhagslegar skuldbindingar að ræða þegar til kemur. Þetta eru peningar sem skipta máli, bæði þegar sendiherrabústaðir eru seldir eða keyptir og eðlilegt að fjárlaganefnd sé vel upplýst um það.

Varðandi þróunaraðstoðina leyfi ég mér að velta því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra sé þeirrar skoðunar að fjárhagur ríkissjóðs sé þannig að það sé raunhæft að bæta í á þessum tímapunkti, hvort það sé nægilegt borð fyrir báru í fjárhag ríkissjóðs til að rétt sé að fara í þá aukningu. (Forseti hringir.) Það er allt annað að halda fjárheimildum óbreyttum eða láta þær fylgja verðlagi eða eitthvað þess háttar en þarna er um verulega aukningu að ræða. Ég velti fyrir mér hvort hæstv. utanríkisráðherra telji að (Forseti hringir.) staða ríkissjóðs sé þannig að það sé létt og fyrirhafnarlaust fyrir okkur að gera þetta.