141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[16:13]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég veit að það gleður hv. þingmann óumræðilega en leiðtogi lífs míns í þeim efnum sem snýr að þróunarmálum er enginn annar en formaður breska íhaldsflokksins, David Cameron. Í þeirri erfiðu stöðu sem Bretar eru hefur hann persónulega beitt sér fyrir því að hækka framlög til þróunarmála. Einn af vinum hans á Íslandi sem situr hér í salnum, hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur góðu heilli sama skilning á heilbrigðum konservatífisma og David Cameron, vegna þess að enginn hélt glæsilegri ræður en hv. þingmaður þegar við samþykktum þingsályktunartillögu um þróunarsamvinnu.

Svar mitt er því já, ég tel að peningunum sé vel varið. Svar mitt við því hvort það sé auðvelt: Nei, mjög erfitt. Það er alltaf erfitt að verja miklu fé til mála af þessu tagi, það er alltaf umdeilt. En sannfæring mín er alveg ljós í þessum efnum.

Síðan spyr hv. þingmaður hvort kostnaður við aðildarumsóknina hafi verið minni eða hvort hann sé falinn. Ég hugsa að það séu þrjár ástæður sem gera það að verkum að upphæðin er minni en hv. þingmaður gerði ráð fyrir. Í fyrsta lagi held ég að það sé rétt hjá honum að kostnaðurinn fellur að einhverju leyti að hluta á önnur ráðuneyti, hvort sem það kemur niður á öðrum verkefnum eða eins og ég hef séð í því ráðuneyti sem mest mæðir á fyrir utan utanríkisráðuneytið, að menn leggja sig einfaldlega fram, vinna meira. Ég held að mjög margir sem koma að þessu ferli vinni ókeypis löngum stundum.

Í öðru lagi held ég að innri hagræðing hjá okkur og öðruvísi röðun starfsmanna innan ráðuneytis hafi hjálpað töluvert upp á sakirnar.

Í þriðja lagi hefur þetta verið aðeins léttara, ekki jafndýrt og ég taldi í upphafi.

Hvað varðar Þýðingamiðstöðina, þá var hún stærsti parturinn af upphæðinni sem við nefndum í upphafi (Forseti hringir.) en eins og ég sagði áðan höfum við fengið styrki til þeirra starfa frá IPA, 4,5 millj. evra. Það var ekki umdeilt því að þýðingarstyrkir voru teknir fram í áliti meiri hlutans þegar við samþykktum þetta upphaflega.