141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[16:16]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að fá að taka örstutt þátt í þessari umræðu um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2013 og þau verkefni sem þar eru undir utanríkisráðuneytinu.

Í starfi mínu sem formaður utanríkismálanefndar Alþingis og í ýmsu öðru alþjóðastarfi hef ég átt þess kost að kynnast nokkuð rækilega starfi Íslands á erlendri grundu, starfi sendiráða, sendiskrifstofa og sendinefnda, bæði í tvíhliða samhengi og í fjölþjóðasamhengi. Ég vil byrja á að segja að íslenska utanríkisþjónustan á heiður og hrós skilið fyrir sérstaklega vel unnin störf og faglega vinnu. Utanríkisþjónusta Íslands er fámenn í samanburði við þjónustu í mörgum öðrum ríkjum. Hún er fámenn en við erum heppin að búa yfir mjög góðu og hæfileikaríku starfsfólki sem hefur lagt sig fram um að þjóna hagsmunum Íslands erlendis. Mér þykir miður hve oft í hinni pólitísku umræðu — og það er ekki séríslenskt fyrirbrigði, það eru hlutir sem maður sér í pólitískri umræðu víða um lönd — er auðvelt að gera allt sem lýtur að utanríkismálum og utanríkisþjónustu tortryggilegt. Það er mjög bagalegt. Oft eru það ódýrar pólitískar keilur sem menn slá með því af því að oft er hægt að ná sér í prik á heimavelli hvað það snertir. Þetta finnst mér miður og ég vil í upphafi þessarar 1. umr. láta það sjónarmið koma fram að ég tel að við séum almennt séð að vinna mjög gott starf með litlum fjármunum. Starfsfólkið í utanríkisþjónustunni á sannarlega skilið hrós fyrir það.

Mig langar að nefna sérstaklega atriði sem hafa komið upp í þessari umræðu og varða þróunaraðstoðina sérstaklega. Við fjölluðum um þetta mál í tengslum við þingsályktun um áætlun um alþjóðaþróunarsamvinnu Íslands 2011–2014. Um það mál varð ítarleg umræða, bæði hér í þingsal og eins í þingnefnd, og ákveðin markmið voru sett. Ég fæ ekki betur séð, virðulegi forseti, en að í fjárlagafrumvarpinu sé farið eftir þeim viðmiðum sem sett voru í þeirri þingsályktun hvað varðar hlutdeild af vergum þjóðartekjum. Tölurnar eru að vísu aðeins aðrar en það á sér þá skýringu að þjóðartekjurnar eru væntanlega eitthvað aðeins aðrar en áætlunin gerði ráð fyrir, en hlutfallið virðist vera það sama og kannski jafnvel meira.

Mér finnst mjög mikilvægt og mjög auðvelt að rökstyðja framlög okkar til þróunarsamvinnu. Ég tel að fyrir hinar ríkari þjóðir heims — og Ísland er það þrátt fyrir erfiðleikana — sé mjög mikilvægt að draga úr misskiptingu í heiminum, að við stuðlum að friðsamlegri sambúð þjóðanna. Það getur bara aukið velsæld hjá okkur líka til lengri tíma litið og það eru rökin sem við eigum að nota fyrir því að auka framlög til þróunarsamvinnu.

Virðulegur forseti. Ég áskil mér rétt til þess að fara meira í þessa umræðu um utanríkismálin við 2. umr. um fjárlagafrumvarpið.