141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[16:23]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þingmaður spyr mig hvort það sé einhver málaflokkur sem ég telji vert að gaumgæfa hvort veita ætti meira fé í og svarið er já. Fyrst hv. þingmaður biður mig um ráðleggingar í þeim efnum tel ég að hv. þingmaður og þingið eigi að skoða norðurslóðamálin. Ég er þeirrar skoðunar. Ég tel að þau séu á svo fljúgandi ferð að nauðsynlegt sé að Ísland haldi þeirri virkni sem við höfum sýnt þar.

Ég tel að norðurslóðir séu auðlind fyrir Ísland í framtíðinni í tvennum skilningi, jafnvel þrennum. Í fyrsta lagi náttúrufræðilega eins og er nú þegar. Í öðru lagi er ég manna sannfærðastur um það, sérstaklega eftir rannsóknir á síðasta ári á Drekasvæðinu, að þar er olíu að finna. Hún hefur fundist þar þó í litlum mæli sé. Spurningin er hvort hún er vinnanleg. Ég tel að öll vitneskja hnígi til þess. Ég tel þess vegna að í framtíðinni verði svæðið uppspretta gæða og þar kemur utanríkisþjónusta inn í og ekki síst sá stórkostlegi samningur sem Guðmundur Eiríksson þjóðréttarfræðingur gerði 1981 gagnvart vinnslu Noregsmegin efnahagslögsögunnar.

Í þriðja lagi held ég að alveg burt séð frá olíu og gasi þá muni þjónusta við umferð á Norðurhöfum, meðal annars tilraunaboranir á þremur olíusvæðum sem ég tel að verði norðan Íslands á næstu 12–15 árum, verða gríðarleg lyftistöng fyrir Norðurland og fyrir hagkerfi Íslands. Þess vegna skiptir mjög miklu máli að við höldum vöku okkar og höldum þeirri virkni sem við höfum byggt upp sameiginlega á síðustu árum. Einungis þeir sem hafa látið að sér kveða og hafa frumkvæði koma til með að hafa áhrif þegar menn fara í auknum mæli að setja reglur um það hvernig á með að fara og um að fara á Norðurhöfum.