141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[16:25]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Við höfum nú nýtt fyrirkomulag á umræðunni eftir framlagningu fjárlagafrumvarpsins og mér sýnist að ágætlega sé að takast að fá ráðherra allra ráðuneyta til að taka þátt í 1. umr. Ég tek fram að eðli máls samkvæmt hefur fjárlagafrumvarpið í sjálfu sér ekki enn verið efnislega kynnt í utanríkismálanefnd þannig að við þessa umræðu er ekki við öðru að búast en að fram komi almenn sjónarmið.

Ég vil þakka ráðherranum fyrir innleiðingu hans fyrir umræðuna og ætla að koma með nokkrar almennar athugasemdir. Í fyrsta lagi held ég að það verði að segjast eins og er að við séum í efri mörkum þess sem hægt er að leyfa sér varðandi framlög til utanríkismála almennt þegar tekið er mið af stöðu ríkissjóðs í dag.

Ég tek eftir því hjá þessu ráðuneyti, eins og svo víða annars staðar í fjárlögunum, að stofnkostnaður og viðhald er fyrsti liðurinn sem virðist ráðist á. Ég tel að það sé almennt í fjárlögunum dálítið hættuleg þróun að ráðast sífellt á stofnkostnað og viðhald vegna þess að með því eru menn ekki að spara mikla peninga en miklu frekar að ýta á undan sér útgjöldum sem elta þá uppi síðar.

Síðan vil ég segja það almennt um þá málaflokka sem hér falla undir ráðuneytið að auðvitað eru þar stórir málaflokkar sem kannski er ekki rétt að vera að ræða undir fjárlagaumræðunni, eins og til dæmis aðildarumsóknina að Evrópusambandinu, heldur á kostnaðurinn vegna þess brölts frekar heima í almennri umræðu um Evrópusambandið. En hér hafa þróunarmálin og framlög til þess hjálparstarfs komið sérstaklega til umræðu. Mig langar til að taka upp einn flöt málsins við ráðherrann og hann er þessi: Til að þingið geti veitt framkvæmdarvaldinu, ráðuneytinu í þessu tilviki, fullnægjandi aðhald, fylgt fjármununum vel eftir, þá er ég þeirrar skoðunar að við þurfum að gera þinginu kleift að fylgja eftir þessum framlögum, meðal annars með vettvangsheimsóknum og miklu þéttara og nánara samstarfi við ráðuneytið og þær stofnanir sem undir það heyra svo að meiri dýpt komi í umræðuna hér á þinginu vegna þróunarmála og alþjóðahjálparstarfs almennt. Á þeim tíma sem ég hef setið í utanríkismálanefnd, í allnokkur ár, hef ég í eitt skipt haft tækifæri til að fara á vegum Sameinuðu þjóðanna til Níkaragva og fylgjast þar með verkefnum sem Íslendingar áttu þátt í og um leið að heimsækja þá skrifstofu sem við héldum úti þar. Ég sannfærðist í þeirri ferð minni um ágæti þeirra verkefna sem þar var verið að sinna en ég er mjög eindregið þeirrar skoðunar að það skorti mjög á að þinginu sé gert kleift að rækja eftirlitshlutverk sitt með þeim fjármunum sem eru að vaxa mjög í fjárlögum hvers árs og núna inn í framtíðina. Ég vil inna ráðherrann eftir hans sjónarmiðum um það hvernig við getum gert bragarbót á þessu.