141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[16:29]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég hef þegar lýst sjónarmiðum mínum til þessa síðasta liðar sem hv. þingmaður spurði mig um. Ég hef sagt það í umræðu að ég telji æskilegt að utanríkismálanefnd, eða að minnsta kosti fulltrúar allra flokka sem þar eiga sæti, fari í vettvangsheimsóknir af þessu tagi. Ég held að það skipti rosalega miklu máli fyrir þingið að menn fái sannfæringu fyrir því hvort verið sé að verja fénu vel eða illa. Ég get viðurkennt það fyrir hv. þingmanni að ég hafði fyrr á árum efasemdir um að verið væri að verja þessu fé nægilega vel. Nú er það að vísu með allt öðrum hætti gert en áður. Við beinum kröftum okkar miklu meira að grasrótinni og erum í nánu samstarfi við heimamenn þannig að þeir hafa mjög sterkt eignarhald á verkefnum. En ég tel að þetta sé mjög gott, rétt hugsun hjá hv. þingmanni.

Hann spyr mig um leiðina til þess. Ég held að það sé engin leið önnur en að þingið verji af peningum sínum í ferðakostnað, sem eru ærnir, til að senda þingmenn á þessi helstu svæði, þau eru ekki mörg. Fyrir mér opnaði það augu mín enn frekar og ég skildi þetta miklu betur þegar ég fór til eins þessara landa, til Malaví, og sá gagnið sem okkar framlag gerði þar og heyrði fólkið segja frá því hvað það munaði miklu að hafa útikamra og aðgang að vatni. Það gjörbreytti lífi þess, sagði fólkið.

Um þá athugasemd hv. þingmanns að framlögin til utanríkisþjónustunnar væru í efri mörkunum þá leyfi ég mér að efast um það. Hv. þingmaður má þó upplýsast um það að við erum með lægst hlutfall af landsframleiðslu til utanríkisþjónustu af Norðurlöndunum. Ég er þeirrar skoðunar að í þeim erfiðleikum sem við höfum átt á síðustu árum hafi sú fjárfesting sem er í utanríkisþjónustunni skilað sér mjög vel. Ég er þeirrar skoðunar. Ég er reyndar þeirrar skoðunar, sem hefur komið fram fyrr í þessari umræðu, að jafnvel mætti eyða meiru á tilteknum svæðum til að koma málstað Íslands fram.