141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[16:31]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég vil taka það fram að athugasemd mína um heildarframlögin ber ekki að skilja svo að ég vilji gera lítið úr mikilvægi utanríkisþjónustunnar. Það er líka rétt að það komi fram að við Íslendingar, einfaldlega sökum þess hversu fámenn þjóð við erum, munum ávallt þurfa að taka á okkur hlutfallslega meiri kostnað við að halda úti slíkri starfsemi en aðrar þjóðir. Það breytir því ekki að við eigum stöðugt að leita leiða til þess að auka hagræðingu. Sú þróun sem maður hefur séð til dæmis í Þýskalandi og aðeins í Washington í Bandaríkjunum þar sem Norðurlandaþjóðirnar eru að þétta með sér samstarfið og jafnvel að koma sér fyrir á sama staðnum, finnst mér jákvæð. Hún vekur upp spurningar hjá mér um það hvort ekki væri hægt að ganga mun lengra á þeirri braut á fleiri stöðum og efla þannig þjónustuna og auka hagræðinguna á sama tíma.

Það er efni í sérstaka umræðu hvernig við skiptum framlögum til þróunarmála sem við höfum verið að ræða hér, á milli tvíhliðastarfsins og fjölþjóðasamvinnunnar. Að sjálfsögðu hefur maður haft ákveðnar efasemdir um að við gætum unnið mjög stóra sigra í tvíhliða samvinnunni. Þess vegna gæti mögulega verið best tryggt að fjármunirnir kæmu að gagni þegar búið væri að byggja upp alla yfirbygginguna og alla ferlana í fjölþjóðlega starfinu. Ég er hins vegar sannfærður um, eins og ráðherrann kom inn á, að við erum að gera mikið gagn. Það er meðal annars vegna þess að við höfum þróað með okkur hæfileika til að koma til skila þekkingu og reynslu á ákveðnum sviðum og á ákveðnum svæðum. En þetta er mikið þolinmæðisverk og þarf að vera í stöðugri skoðun og athugun. Það þarf að veita verkefnunum stöðugt aðhald, m.a. með (Forseti hringir.) vettvangsferðum eins og þeim sem við höfum rætt hér um. Það er rétt sem ráðherrann tekur fram að þingið þarf að efla sig í því eftirlitshlutverki. Það þarf einfaldlega að gera meira af því að fylgja verkefnunum eftir með (Forseti hringir.) því að fara á staðinn og gera úttektir á árangri af framlögum til þróunarmála og hjálparstarfs.