141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[16:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég er algjörlega sammála öllu því sem hv. þingmaður sagði. Þróunarsamvinnustofnun hefur til dæmis verið að efla bókhald sitt og fengið utanaðkomandi endurskoðendur til þess að mæla árangurinn af þessum verkefnum.

Það er efni í sérstaka umræðu og er alveg fyllilega þess virði að nefna hjá hv. þingmanni, hvernig deila eigi peningunum á millum tvíhliða verkefna eða fjölhliðaþátttöku í þróunarstarfi. Það vill svo til að ég er þveröfugrar skoðunar við hv. þingmann, en ég var þó áður sömu skoðunar og hv. þingmaður virtist vera, þ.e. ég var ekki sannfærður um tvíhliða verkefnin. Ég tel núna að þau skipti mjög miklu máli, en auðvitað mest á mjög litlum svæðum af því Ísland er mjög lítið land. Við förum inn á tiltekin svæði og þau eru smá. Við sníðum okkur stakk eftir vexti og við förum út úr verkefnunum þegar við teljum að við höfum náð þeim árangri sem við stefndum að.

Ég nefni af eigin reynslu Mangochi-hérað við Malavívatn, sem var það allra snauðasta í allra fátækasta landi Afríku. Það er í dag, út af áherslu okkar á þessu svæði, orðið eftirsótt til búsetu, m.a. vegna þess að það er eitt af fáum svæðum fyrir utan þéttbýlin þar sem er kostur á því sem þeim finnst vera fyrsta flokks heilsugæsla. Það var dálítil lífsreynsla að koma til dæmis á fæðingardeild í miðjum skógi, sem ég dreg í efa að nokkur íslensk kona hefði farið inn á, og sjá gleði þeirra yfir því að fá að liggja þar á rúmum á steingólfum og fæða. Eins og ljósmóðirin sagði við mig: Börnin deyja ekki hjá okkur. Þar eiga Íslendingar örlítil hlutabréf í að ég held 16 þúsund börnum sem hafa fæðst þar. Konurnar koma langan veg að til þess að fæða þar.

Þetta skiptir máli. Þarna sníðum við okkur stakk eftir vexti. Við tökumst á við verkefni sem við getum sinnt og höfum þekkingu á. Við erum ekki að yfirkeyra okkur fjárhagslega. En umræðan er þess virði að taka hana. Hvernig á að deila þessum peningum? Sumir hafa verið þeirrar skoðunar, m.a. úr þessum ræðustól, að öllu ætti að ýta yfir í tvíhliða verkefni. Það er líka dálítið erfitt.