141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[16:51]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tala hér sem staðgengill atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, fyrir fjárlagatillögum efnahags- og viðskiptaráðuneytis, iðnaðarráðuneytis og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis en eins og kunnugt er voru þessi þrjú ráðuneyti sameinuð frá og með 1. september síðastliðnum.

Heildargjöld þessa nýja ráðuneytis eru um 35 milljarðar og sú niðurskurðarkrafa sem sett er fram á þetta ráðuneyti er 1,7% og nemur 731 millj. kr. Er það í samræmi við þau almennu markmið sem hafa verið sett um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum og bætist ofan á það aðhald sem hefur verið á þessum málaflokkum á undanförnum árum.

Í frumvarpi til fjárlaga 2013 er rétt að það komi fram að sundurliðun er eins og ráðuneytin voru fyrir sameiningu en síðan er gert ráð fyrir að í 2. umr. verði fjárlagaliðir sameinaðir undir einum fjárlagaflokki.

Mig langar að fara stuttlega yfir nokkra þætti. Ljóst er að þeir liðir sem kunna að verða til umræðu hjá þingmönnum eru mismunandi undir þessu ráðuneyti. Mér finnst rétt að vekja athygli á þeim málum þar sem taldir eru vera ákveðnir veikleikar. Ég vil fyrst nefna Matvælastofnun sem á við erfiða rekstrarstöðu að stríða en hún hefur verið að innleiða nýja matvælalöggjöf sem byggir á mjög umfangsmiklum og nákvæmum EES-reglum. Framlög hafa verið skorin niður undanfarin ár þrátt fyrir vaxandi verkefni, þannig að þetta gæti valdið ákveðnum áhyggjum í fjárlagatillögum þessa árs.

Síðan vil ég nefna annað áhyggjuefni sem eru framlög til kaupa á rannsóknarþjónustu af Matís sem hafa lækkað ár frá ári. Annars vegar hafa framlög til kaupa á þjónustunni lækkað með niðurskurði og aðhaldi. Í öðru lagi var við stofnun stofnunarinnar gerður samningur um umtalsverða lækkun fjárveitinga á tilteknu tímabili. Síðan hafa stofnanir sem hafa verið að kaupa þjónustu af Matís ekki staðið við þau áform. Þarf að skoða með hliðsjón af sjónarmiðum um matvælaöryggi og innleiðingu matvælalöggjafarinnar hvort hægt sé að auka við kaup ríkisins frá því sem áður var áætlað.

Ég vek einnig athygli á því að í frumvarpinu er gert ráð fyrir hækkun á framlögum til AVS-sjóðsins um 30 millj. kr. vegna tekna af leigu aflaheimilda. Þetta er eins og þingmenn þekkja rannsóknasjóður til að auka verðmæti sjávarfangs.

Ég ætla að nefna það líka, og kem þá yfir í búvörusamningana, að að undanförnu hafa staðið yfir viðræður við Bændasamtök Íslands um breytingar á búvörusamningum. Þær viðræður eru nú á lokastigi og snúa að því að umsamdar verðbætur komi ekki að fullu til framkvæmda, heldur að framlög vegna búvörusamninga á árinu 2013 verði eingöngu hækkuð til samræmis við áætlaða verðlagshækkun milli áranna 2012 og 2013, og þá er miðað við það að samningarnir verði framlengdir.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að þær aðhaldsaðgerðir skili 495 millj. kr. samdrætti í útgjöldum. Við teljum líklegt að sú aðgerð gæti jafnvel skilað meiri sparnaði.

Aðrar breytingar sem þetta væntanlega samkomulag mun hafa í för með sér verða lagðar fram við 2. umr. frumvarps til fjárlaga. Þar er meðal annars gert ráð fyrir nokkurri hækkun framlaga samkvæmt svokölluðum búnaðarlagasamningi, einkum til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og kornræktar, en það er forsenda þess að umræddu samkomulagi um skerðingu verðbóta verði náð.

Svo ég nefni aðeins málaflokka iðnaðarráðuneytisins í frumvarpinu er rétt að halda því til haga að í aðhalds- og hagræðingaraðgerðum síðustu ára hefur Tækniþróunarsjóður verið varinn fyrir niðurskurði og er það í samræmi við þá stefnu stjórnvalda að efla fjárfestingar í rannsóknum, þróun og nýsköpun. Síðan eins og kynnt var er lagt til að fjárheimild Tækniþróunarsjóðs aukist um 540 millj. kr. milli ára. Sú fjárveiting er fjármögnuð með sérstakri tekjuöflun á veiðigjaldi á auðlindaarð sjávarútvegsins. Ég ræddi fyrr í dag aukningu í rannsóknasjóð sem kemur frá sama stofni.

Mig langar líka að nefna tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar sem bárust hér líka í tal fyrr í dag. Í fjárlagafrumvarpinu er gerð tillaga um 400 millj. kr. fjárheimild vegna endurgreiðslna. Í frumvarpinu kemur fram að þetta tekur mið af fjölda umsókna sem iðnaðarráðuneytinu hafði borist á fyrri hluta árs 2012 en ekki áætlun um fjárhæð endurgreiðslna á árinu 2013.

Í áætlun fjármálaráðuneytis, sem er í fylgiskjali 1 með frumvarpinu, kemur fram að áætlaðar endurgreiðslur á árinu 2013 geti numið allt að 1 milljarði kr. Þetta eru sem sagt endurgreiðslur vegna kvikmynda sem eru framleiddar á Íslandi á árinu 2012. Eins og öllum hv. þingmönnum er kunnugt hafa stór erlend verkefni verið hér sem hafa skapað bæði gjaldeyristekjur og tekjur til ríkissjóðs þegar til útborgunar vegna þeirra kemur.

Velta á gjaldeyristekjur vegna erlendra kvikmynda hér á landi á árinu 2012 hefur þegar numið 3 milljörðum kr. Þá er ekki talin með önnur afleidd þjónusta og umsvif sem verkefnunum fylgja. Það þýðir að skuldbinding ríkisins vegna endurgreiðslna gæti numið um 600 millj. kr.

Fleira gæti ég nefnt en tími minn er nú alllítill. Ég vil þó nefna sérstaklega nýjan fjárlagalið um styrki til nýsköpunarfyrirtækja. Gert er ráð fyrir 1,1 milljarði kr. til stuðnings við rannsóknar- og nýsköpunarfyrirtæki í formi skattfrádráttar til verkefna sem hafa hlotið til þess samþykki. Sams konar stuðningur var veittur á árinu 2011, en þetta er nýr fjárlagaliður. Hér er gerð tillaga um fjárheimild, enda er það í samræmi við fjárreiðulög að útborganlegur skattfrádráttur sé færður til gjalda í fjárlagafrumvarpinu.

Ég hef ekki náð að nefna Samkeppniseftirlitið sem einnig heyrir undir þetta ráðuneyti. Ég kem kannski nánar að því ef spurt verður um það. Rétt er að benda á að í frumvarpinu er tillaga um að framlengja 20 millj. kr. fjárheimild sem Samkeppniseftirlitið fékk tímabundið til tveggja ára í fjárlögum 2011 vegna verkefna sem hefur fjölgað mjög (Forseti hringir.) frá bankahruni.