141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[16:58]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina á þessum málaflokki. Spurning mín snýr að tekjuhliðinni og snýr að hækkun á virðisaukaskatti á gistiþjónustuna.

Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra benti á að það væri mat fjármálaráðuneytisins að um yrði að ræða endurgreiðslu vegna kvikmyndaverkefna á Íslandi upp að allt að 1 milljarði kr., 1 þúsund milljónum. Það er væntanlega vegna þess að skilningur er á því að líklegt sé að erlendir aðilar komi hingað með viðskipti sín, þ.e. kvikmyndagerðina, og ríkið muni síðan hagnast á því þegar upp verður staðið. Með öðrum orðum, að það skipti máli að hagstætt skattumhverfi sé fyrir þá sem vilja koma hingað og þeir komi hingað meðal annars vegna þess.

Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hver sé nákvæmlega munurinn á stöðu kvikmyndageirans annars vegar hvað þetta varðar, þ.e. skattaívilnanir, og hins vegar á ferðaþjónustuna, gistináttaþáttinn, í ljósi þess mats sem fram hefur komið meðal annars hjá Hagfræðistofnun þar sem bent er á að þetta geti leitt til þess að mun færri ferðamenn komi til landsins. Tölur hlaupa á tugum þúsunda. Ferðamönnum hingað til lands gæti fækkað um 48.000, ef ég man rétt, eftir að búið er að hækka þessar álögur.

Ég held að það skipti máli fyrir okkur að fá útskýringar frá hæstv. ráðherra hvers vegna ríkisstjórnin hefur þá skoðun hvað varðar kvikmyndaiðnaðinn að með því að lækka skattana þar og endurgreiða, að þar með komi viðskipti, en virðist síðan hafa minni áhyggjur af því að með því að hækka skatta á atvinnugrein sem byggir einmitt á því að útlendingar komi hingað til lands til að eyða fjármunum sínum hér. Og af hverju menn hafa ekki sömu sjónarmið uppi þegar ljóst er að um er að ræða þá atvinnugrein sem fer hratt vaxandi og er í örum vexti.

Það skiptir máli í kjördæmi okkar hæstv. ráðherra. Hér er mikill fjöldi lítilla fyrirtækja sem reka slíka þjónustu. Það er mikill fjöldi Reykvíkinga sem hefur störf og viðurværi sitt einmitt af þessu.

Ég vil benda á að með því að leggja þetta á með þeim hætti sem gert er, með því að skella þessu á, standa fjöldamörg fyrirtæki frammi fyrir þeim vanda að búið er að selja þjónustuna. Það er búið að selja gistinæturnar eitt ár fram í tímann jafnvel og sums staðar lengra fram í tímann. Þar með er enginn möguleiki fyrir slík fyrirtæki að velta þeim kostnaði yfir á viðskiptavini sína, (Forseti hringir.) þau verða að taka það af sínum rekstri.