141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[17:08]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það vakti athygli mína í þessu svari hæstv. starfandi atvinnuvegaráðherra að hún var ekki á sömu línu og hæstv. fjármálaráðherra sem var greinilega kominn á flótta varðandi innheimtu á virðisaukaskatti á gistingu. Hæstv. fjármálaráðherra var farinn að tala fyrir því hér í gær að kannski væri eðlilegt að seinka þessu til 1. september. Síðan kemur hæstv. atvinnuvegaráðherra, harðjaxlinn, sem ætlar greinilega að ganga miklu harðar fram gagnvart ferðaþjónustunni en hæstv. fjármálaráðherra er farinn að boða.

Ég spyr hæstv. atvinnuvegaráðherra: Er pólitískur ágreiningur um þetta í ríkisstjórninni? Vill hæstv. atvinnuvegaráðherra ganga harðar fram í því að innheimta virðisaukaskatt af ferðaþjónustu en hæstv. fjármálaráðherra sem greinilega var farinn að tala á allt annan veg í andsvörum við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson í gærmorgun?

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um tvö atriði sem vöktu athygli mína þegar ég las frumvarpið. Annað þeirra snýr að landbúnaðinum. Boðað er að grípa eigi til tiltekinna aðhaldsaðgerða gagnvart búvörusamningunum. Búvörusamningar eru, eins og nafnið bendir til, samningar milli ríkisins og búvöruframleiðenda. Gert er ráð fyrir að þeir taki ákveðnum verðlagsbreytingum. Hæstv. ríkisstjórn knúði það í gegn með offorsi, í samningum við Bændasamtökin, að þessir samningar mundu ekki taka að fullu verðlagsbreytingum. Út af fyrir sig hafði ég skilning á því þá við þær aðstæður sem þá voru uppi. Í þeim samningum var hins vegar gert ráð fyrir því að þegar upp væri staðið yrði þetta bætt upp með tilteknum hætti þegar liði á samningstímabilið.

Nú er verið að boða að það verði ekki gert. Í fjárlagafrumvarpinu er bókstaflega gert ráð fyrir því að þessir samningar verði ekki efndir að fullu. Hins vegar er verið að gefa sér að nást muni um það samkomulag milli ríkisins og bænda að bændur taki þessa skerðingu á sig í hvaða mæli sem hún er.

Hér er um samninga að ræða og fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir þessari skerðingu. Ég spyr hæstv. ráðherra: Megum við gera ráð fyrir því að gerðar verði breytingartillögur til hækkunar á þessum fjárlagalið ef ekki nást samningar við Bændasamtökin um þessa skerðingu?

Hæstv. ráðherra vék að kvikmyndagerðinni. Á þessu ári var gert ráð fyrir því í fjárlögum að til endurgreiðslunnar yrði varið 400 millj. kr. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að skuldbindingarnar sem af lögunum leiða séu um 900 millj. kr., þar munar hvorki meira né minna en hálfum milljarði. Einnig er gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að á næsta ári verði 400 millj. kr. varið í endurgreiðslurnar en hæstv. ráðherra segir að gera megi ráð fyrir því að það verði milljarður.

Það skeikar heilum milljarði í þessum tölum. Ég spyr hæstv. ráðherra: Má gera ráð fyrir því að hæstv. ráðherra komi fram með breytingartillögur milli 1. og 2. umr., í meðferð fjárlaganefndar, um að hækka þennan fjárlagalið, sem nú er 400 millj. kr., upp í einn milljarð til móts við það sem hæstv. ráðherra talaði um að búast mætti við að yrði hin raunverulega endurgreiðsla á næsta ári?