141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[17:11]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Það er hárrétt hjá honum að sú sem hér stendur er gríðarlegur harðjaxl, en ég fór nú ekki út í neinar tímasetningar, þannig að það er algjör óþarfi hjá hv. þingmanni að gera því skóna að ágreiningur sé á milli mín og fjármálaráðherra. Svo er ekki, enda ræddi ég alls ekki um tímasetningar, heldur fyrst og fremst um þau grundvallarmarkmið sem liggja að baki.

Hv. þingmaður nefndi sérstaklega búvörusamningana. Eins og kom fram í máli mínu áðan eru viðræður við Bændasamtökin á lokastigi. Það er ástæða þess að þetta stendur með þessum hætti í frumvarpinu. Þær samningaviðræður snúast um að umsamdar verðbætur komi ekki að fullu til framkvæmda heldur verði framlögin hækkuð til samræmis við áætlaða verðlagshækkun milli 2012 og 2013. Um leið er miðað við að samningarnir verði framlengdir og gert ráð fyrir nokkurri hækkun samkvæmt svokölluðum búnaðarlagasamningi, til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Það er alveg ljóst að trú okkar er sú að samningar muni nást með þessum hætti. Þeir hafa hins vegar ekki verið undirritaðir.

Hv. þingmaður spyr hvort breytingar verði á fjárlagafrumvarpinu ef svo fer. Ég get ekki, sem staðgengill atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, svarað þeirri spurningu því að sú staða er hreinlega ekki komin upp. Ég held að það verði að bíða þess tíma.

Hv. þingmaður spyr einnig út í kvikmyndagerðina. Fyrir liggur að í frumvarpinu er gert ráð fyrir — þó að heimildin hljóði upp á 400 milljónir — að þá fjárhæð muni ef til vill þurfa að tvöfalda. Fyrir liggur að fjármálaráðuneytið tók við samningu frumvarpsins mið af fjölda framkominna umsókna þegar talnabálkinum var lokað, en iðnaðarráðuneytið taldi nokkuð ljóst, miðað við þau mál sem voru í farvatninu, að þessi tala mundi liggja nær 800 milljónum. Ljóst er að taka þarf afstöðu til þessa milli umræðna, því að víst er að þessi upphæð fer yfir þessar 400 milljónir.