141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[17:13]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þá liggur það fyrir að hæstv. starfandi atvinnuvegaráðherra er ekki harðjaxlinn þegar kemur að því að innheimta virðisaukaskatt gagnvart ferðaþjónustunni, gistiþjónustunni.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er hæstv. ráðherra sammála því að ekki sé hægt að fara fram með þessa hækkun á gistiskattinum með þeim hætti sem boðað er í fjárlagafrumvarpinu? Er hann þeirrar skoðunar að taka verði tillit til þeirra sjónarmiða sem hafa komið fram um það að margir eru búnir að gera samninga fram í tímann og hafa skuldbundið sig með verð í því sambandi og yrðu þá að taka á sig þann aukna kostnað sem hlýst af virðisaukaskattinum? Er hæstv. ráðherra að boða okkur að horfið verði frá áformunum um að leggja þennan skatt á 1. janúar?

Það er mjög mikilvægt að þetta komi fram. Því eins og ferðaþjónustan hefur bent á dugir ekki að bíða með ákvörðun um þetta fram á haustið. Menn eru í óðaönn að gera samninga til næsta árs og verða að hafa þessar forsendur fyrir sér. Ferðaheildsalar erlendis eru að selja. Á næstu vikum er fram undan stóra ferðakaupstefnan Vestnorden og þar má gera ráð fyrir að margir samningar verði gerðir. Mun hæstv. ráðherra ekki vera búinn að tilkynna að þessari hækkun verði að minnsta kosti frestað fram á haustið? Þessu verður hæstv. ráðherra að svara.

Varðandi samningana við bændurna er það nú þannig að á sínum tíma þegar samningurinn var gerður, undir þrýstingi frá ríkisvaldinu sem heldur auðvitað um budduna, var gert ráð fyrir því að bændurnir fengju meira inn í búnaðarlagasamninginn. Í raun og veru voru þeir að kaupa sig frá þessari skerðingu á vissan hátt með þessum hætti. Nú er verið að koma aftan að bændum með því að reyna að knýja aftur á um það að þeir taki á sig skerðingu og þessir samningar verði ekki efndir að fullu.

Að lokum þetta sem hæstv. ráðherra var að segja. Hér gerist það að við erum hér með fjárlagafrumvarp og þar er stór liður sem er endurgreiðsla vegna kvikmyndagerðar. Hæstv. ráðherra segir okkur bara rétt sisvona að til standi að tvöfalda þessa upphæð, fara úr 400 milljónum upp í 800, þó að reyndar hafi það líka komið fram hjá ráðherra að sú tala gæti verið milljarður. Má þá ekki líka gera ráð fyrir því að í fjáraukalögum fyrir þetta ár komi fram tillögur um að hækka töluna, sem er 400 millj. kr. í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár, upp í 900 milljónir? Það yrðu þá 500 milljónir.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) hvort ekki komi fram tillögur um breytingar á þessu sem hækki þennan lið? Það lá fyrir að þetta var (Forseti hringir.) rangur liður þegar fjárlögin voru samþykkt. En hæstv. ríkisstjórn, til þess að blekkja sig áfram með fjárlögin, (Forseti hringir.) hélt sig við þessar 400 milljónir.