141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[17:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir inngang hennar í þetta mál og lýsingu á því. Nú er dálítið erfitt að tala við staðgengil, það er ekki víst að hann hafi sömu skoðun og sá sem hann leysir af. Það vill svo til í þessari ríkisstjórn að ráðherrar hafa í mörgum málum gjörólíkar skoðanir. Á ég þar til dæmis við borun eftir olíu og annað slíkt sem heyrði undir iðnaðarráðuneytið, nú atvinnuvegaráðuneytið.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um ýmis gjöld sem nú er verið að hækka. Tryggingagjaldið var ekki lækkað þótt atvinnuleysi hefði minnkað. Það er verið að þrefalda gjöld á ferðaþjónustu. Það er verið að hækka álögur á fjármálafyrirtæki sem kemur niður á öllu atvinnulífinu. Það er verið að tvöfalda veiðileyfagjald sem kemur niður á sjávarútveginum sem heyrir undir hæstv. ráðherra. Síðan er orkuskattur fyrirtækja sem átti að vera í gildi 2010, 2011 og 2012, menn áttu von á að hann dytti núna niður, hann var fyrir fram greiddur sem er mjög óvenjulegt. En honum er haldið þrátt fyrir loforð um annað o.s.frv.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvernig þessi sífellda skattlagning rími við það sem menn eru að gera til dæmis gagnvart kvikmyndaiðnaðinum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Má búast við því að þetta þýði aukna atvinnu? Eða er ekki lengur markmið að auka atvinnu í landinu? Ég hefði haldið að atvinnuvegaráðuneyti væri til þess.

Síðan vil ég spyrja um nýsköpun. Nú er nýsköpun þannig að fólk fer í einhverja nýja hluti og hættir fé sínu til þess. Þá verður það að geta treyst því að eitthvað sé að marka það umhverfi sem það lifir í. Eins og ég taldi upp áðan er verið að breyta umhverfi fjölda atvinnugreina. Hvað með þau fyrirtæki sem fara í nýsköpun á ýmsum sviðum, t.d. í ferðaþjónustu? Þar er verið að breyta forsendum sem voru settar fyrir nokkrum árum. Er þetta ekki afskaplega ótraust?

Síðan vil ég spyrja hæstv. ráðherra um ástandið í evrulandinu, hvaða áhrif það hefur á þær atvinnugreinar sem heyra undir ráðuneytið eins og til dæmis ferðaþjónustu. Það getur verið að aukin fátækt í evrulandinu þýði að fólk þar geti ekki ferðast. Sömuleiðis með sjávarútveginn. Íslenskur fiskur er mjög dýr. Það er ekki víst að Evrópubúar hafi lengur efni á honum. Það er eins með áliðnaðinn, það getur vel verið að samdráttur verði þar. Hafa menn skoðað hvað gerist með skatttekjur af þessum atvinnugreinum ef slík staða kemur upp? Hvaða áhrif hefur það á fjárlagafrumvarpið?