141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[17:22]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Mér finnst rétt að benda á að þegar við berum saman almenna skattlagningu á atvinnulíf og tryggingagjald hér á landi við önnur OECD-ríki, erum við upp til hópa með þeim ríkjum sem lægstar álögur hafa. Ég held að við sem hér erum verðum að viðurkenna að umhverfi fyrirtækja á Íslandi, þegar litið er til almennra skatta og tryggingagjalds, er þeim hagfellt. Þar held ég að Ísland sé fullkomlega samkeppnishæft til að mynda við önnur þau ríki sem við berum okkur saman við. Þegar við gerum ráð fyrir, eins og ég hef nefnt hér og rætt til að mynda um veiðigjöldin, að atvinnulífið greiði sanngjarna rentu til samfélagsins af þeim auðlindum sem það nýtir og af þeirri starfsemi sem það iðkar, breytir það ekki því að mér finnst mikilvægt að það skerði ekki samkeppnishæfni atvinnulífsins. Ég lít svo á, til að mynda út frá þeim tölum sem við höfum um samanburð við OECD-ríki, að það ætti ekki að gera það.

Hv. þingmaður nefnir ástandið í Evrópusambandinu og raunar víðar í heiminum þar sem við horfum auðvitað á alþjóðlega kreppu af talsverðri stærðargráðu. Ég get tekið undir þau sjónarmið sem hann viðrar. Að sjálfsögðu getur þetta haft áhrif á íslenskt atvinnulíf. Þetta getur haft áhrif á útflutning sjávarafurða. Þetta getur haft áhrif á ferðaþjónustu og á allan útflutning á íslenskum vörum.

Við höfum notið þess að Ísland hefur verið vinsælt land heim að sækja í ferðaþjónustu, m.a. út af gengi krónunnar og fleiri þáttum. Það er ekki endilega varanlegt ástand og það hefur að sjálfsögðu verið tekið til skoðunar. Eins og hv. þingmaður veit og ég líka, getur verið mjög erfitt að segja fyrir um framtíðina í þessum efnum. Þetta er nokkuð sem ég tel að sé áhyggjuefni. Ég tel að við þurfum að ræða þetta í tengslum við fjárlagafrumvarpið, en líka við uppbyggingu á atvinnustefnu okkar.