141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[17:26]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Einhverjir vilja fjárfesta í þessu landi, því atvinnuvegafjárfesting er að fara upp á við og hefur aukist um 19,3% fyrstu sex mánuði þessa árs í samanburði við árið 2011. (Gripið fram í.) Við skulum átta okkur á því líka að það dugir ekki að tala bara um alþjóðlegt samhengi í einu orði og ekki í hinu. Við verðum að átta okkur á því að íslenskt atvinnulíf er vissulega með lágar álögur í alþjóðlegu samhengi, en íslenskt atvinnulíf er líka hluti af því alþjóðlega samhengi að það ríkir alþjóðleg kreppa. Það er ekkert óeðlilegt að sú kreppa sem og það hrun sem við urðum fyrir hafi haft áhrif á atvinnuvegafjárfestingu. Þó það nú væri.

Hins vegar lít ég svo á að það séu góð teikn á lofti með atvinnuvegafjárfestingu. Það nægir að líta til þróunarinnar undanfarna tvo áratugi. Þar förum við upp á við. Við erum komin upp fyrir meðaltal þeirra tveggja áratuga og erum að fara upp á við núna. Ég tel að ekki sé hægt að kenna stefnu ríkisstjórnarinnar um að fjárfesting hafi farið niður í tengslum við stærsta efnahagsáfall sem hefur orðið í sögu þjóðarinnar á lýðveldistímanum og þá alþjóðlegu kreppu sem ríkir og ekki bara á Íslandi. Að sjálfsögðu hefur hún áhrif líka á nýfjárfestingar í atvinnulífi.

Þegar við ræðum um alþjóðlegan samanburð eins og hv. þingmaður gerði áðan og fannst mikilvægt að við litum til stöðunnar í Evrópusambandinu og stöðunnar á alþjóðavettvangi, held ég að hv. þingmaður verði líka að líta til stöðunnar á alþjóðavettvangi þegar hann skoðar þróunina hér á landi undanfarin ár hvað varðar uppbyggingu í atvinnumálum, þar með talið atvinnuvegafjárfestingu. Þar held ég að við finnum ýmsar skýringar. En ég tel einnig að það sé ástæða til þess að vera bjartsýn miðað við þá þróun sem þegar hefur orðið á árinu og ég hef trú á að hún haldi áfram.