141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[17:28]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir að það er frekar erfitt að ræða við staðgengil, en ég mun leggja fram spurningar til hæstv. ráðherra sem er staðgengill hæstv. atvinnuvegaráðherra og vona að það sé eitthvert samræmi á milli skoðana þessara tveggja ágætu ráðherra sem er auðvitað ekki sjálfgefið eins og við þekkjum.

Almenna reglan er sú að það er gott tækifæri til þess að fá fjárfestingar inn í landið eftir að hafa lent í þeim aðstæðum sem við lentum í. Það er alveg ljóst að við höfum ekki ýtt undir eða hjálpað til við að fá erlendar fjárfestingar til landsins, ég held að enginn geti haldið því fram. Ég held að yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra um þjóðnýtingu og annað slíkt hafi til dæmis gert það að verkum að nú er talað um pólitískan óstöðugleika þegar rætt er um Ísland. Það er algjörlega heimatilbúinn vandi hjá ríkisstjórninni.

Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra út í eina atvinnugrein sérstaklega sem ég hef miklar áhyggjur af. Við vitum að okkur hefur ekki tekist að fjölga störfum á milli ára. Ef við tökum Íslendinga, ekki alla þá sem hér hafa verið frá því þessi ríkisstjórn tók við, held ég að nettótalan sé 6 þúsund manns, svona eins og eitt Grafarholtshverfi, sem hafa flutt til útlanda. Hins vegar hefur gengið mjög vel í ferðaþjónustunni, en það er þó mjög brothætt grein. Þar er mikið af smáfyrirtækjum sem berjast í bökkum.

Ég vildi heyra frá hæstv. atvinnuvegaráðherra hvort hún telji að þau fyrirtæki sem eru ekki með 25,5% virðisaukaskatt séu á ríkisstyrk. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hæstv. atvinnuvegaráðherra upplýsi um það. Er það svo að ef þjónusta viðkomandi fyrirtækis ber ekki 25,5% virðisaukaskatt er það þá ríkisstyrkur?

Ég ætla að hæstv. atvinnuvegaráðherra hafi áhuga á því að fjölga störfum eins og við hér og sé einlæg í því, og því vil ég spyrja hvort hún hafi ekki áhyggjur af því sem segir í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Hagfræðistofnun var fengin sérstaklega af ríkisstjórninni til að skrifa þá skýrslu. Hún hefur reyndar verið gagnrýnd fyrir margt í henni, ég ætla ekki að fara yfir það allt í þessu stutta spjalli. Stofnunin telur að fækkun ferðamanna geti numið allt að 48 þúsund manns. Það getur hver og einn sem vill skoðað það í skýrslunni, mig minnir að það sé á bls. 25. Ég vil vita hvort hæstv. atvinnuvegaráðherra hafi ekki áhyggjur af þessu.