141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[17:31]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Mér finnst gott að menn velti því upp sem ég hef rætt varðandi jafnræði atvinnugreina. Eins og hæstv. fjármálaráðherra benti á í gær og ég nefndi áðan skiptir það auðvitað máli að þegar atvinnugreinar eru búnar að slíta barnsskónum og komnar með ákveðna hlutdeild í gerð þjóðarkökunnar, eða hvað við getum kallað það, að þær leggi sitt af mörkum til samfélagsins. Í því felst jafnræði.

Hv. þingmaður spyr: Lít ég á það sem ríkisstyrk að hafa til að mynda skattaívilnanir eða eitthvað slíkt? Nei, mér finnst eðlilegt að skattaívilnanir séu nýttar eins og til dæmis gert er núna gagnvart nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum til að efla atvinnugreinar sem eru litlar og á byrjunarreit, en mér finnst líka eðlilegt að sanngjörn renta sé skoðuð þegar þær hafa náð ákveðnu flugi. Í þessum málum er spurningin hvar eigi að dæma, hvenær þær eru komnar á þann stað að þær geti farið að leggja sitt af mörkum til samfélagsins út frá því sem hv. þingmaður nefnir. Það var mat okkar í ríkisstjórninni að ferðaþjónustan, sem hefur stækkað mjög mikið og náð miklu flugi, væri aflögufær inn í samfélagið.

Hv. þingmaður nefnir að fækkun verði á ferðamönnum. Ljóst er að um er að ræða minni fjölgun ferðamanna en spáð hafði verið en ekki fækkun. Við þurfum að átta okkur á því að þetta gæti hægt á fjölgun ferðamanna og við þurfum að vera með augun opin fyrir því, en ég held hins vegar að ferðaþjónustan eigi mjög mikla vaxtarmöguleika enn þá miðað við þær spár sem verið hafa. En eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal benti á áðan kann ýmislegt annað að koma til en bara stefna íslenskra stjórnvalda. Álögur á atvinnulíf eru tiltölulega lágar, ef við berum okkur saman við OECD-ríki, þar verðum við líka að horfa á hið alþjóðlega samhengi.