141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[17:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt telur hún það ekki vera ríkisstyrk ef viðkomandi atvinnugrein borgar ekki 25,5% virðisaukaskatt. Skildi ég hæstv. ráðherra rétt? (Menntmrh.: Ég hef bara …) Ég vildi þá biðja hæstv. ráðherra um skýringu á því … (Forseti hringir.) Af hverju var virðulegur forseti að slá í bjölluna?

(Forseti (ÁI): Forseti óskar eftir því að ekki sé tveggja manna tal í salnum. Það var ástæðan, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson.)

Virðulegi forseti. Hér var ekki tveggja manna tal. Hins vegar er það vel þekkt venja að stundum kinka menn kolli eða hrista höfuðið þegar spurt er með þessum hætti og ef einhver breyting hefur orðið þar á og ekki er lengur heimilt að gera það þá legg ég til að það sé kynnt en að forseti viðhafi ekki handahófskennd vinnubrögð í hvert skipti.

Hvað sem því líður skil ég ekki alveg umræðuna um að viðkomandi atvinnugrein sé búin að slíta barnsskónum og sé aflögufær. Ef við setjum hótelþjónustu í almennt virðisaukaskattsþrep er það ein hæsta virðisaukaskattsprósentan á slíkt í Evrópu. Það liggur fyrir að afkoma hótelanna í Reykjavík hefur verið mjög slæm. Við þekkjum það úti um allt land að slíkur rekstur hefur verið erfiður. Sem betur fer hefur orðið mikil fjölgun á ferðamönnum, en það hlýtur að vera áhyggjuefni ef menn horfa fram á að ekki verði jafnmikil fjölgun ferðamanna næstu árin og verið hefur undanfarið.

Við erum ekki eyland. Við erum ekki komin í þá stöðu að það sé skrifað í helga bók að ferðamenn eigi að koma hingað heldur erum við í mikilli samkeppni við önnur lönd. Við erum í harðri samkeppni, fólk ber saman verð á utanlandsferðum, eins og ég býst við að hæstv. ráðherra geri þegar hún ferðast. Ég tala nú ekki um ef evran fer niður, þá erum við í alvarlegum málum. Ég vil því fá skýrara svar frá hæstv. ráðherra um hvort hún telji að um ríkisstyrk sé að ræða ef hótelþjónusta er ekki í almennu virðisaukaskattsþrepi.

Ég skil heldur ekki hvernig hæstv. ráðherra getur talað um mikilvægi þess að fjölga störfum og um leið tala, að mér fannst, (Forseti hringir.) af ákveðinni léttúð um að hér hafi orðið fækkun starfa vegna of hárra skatta sem ekki er sambærilegt við það sem gerist annars staðar.