141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[17:35]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er ekki sammála hv. þingmanni um að ég ræði þessi mál af léttúð. Það sem ég benti á í ræðu minni áðan var að fjölgun gistinótta og gesta yrði líklega ekki eins mikil og áður hafði verið spáð. Það þýðir ekki fækkun starfa heldur fjölgun starfa, svo það sé haft í huga. Ég frábið mér að ég ræði þessi mál af einhverri léttúð því að það er auðvitað stórt verkefni að skapa heilbrigt umhverfi þannig að hér skapist störf og eins og ég hef bent á ítrekað í ræðum mínum er umhverfi fyrir atvinnulíf á Íslandi tiltölulega gott. Ég nefni til að mynda tryggingagjaldið, ég nefni til að mynda skatta á fyrirtæki þó að virðisaukaskattsþrepið sé hins vegar tiltölulega hátt ef við berum okkur saman við aðra. En við þurfum að horfa á þetta í samhengi. Við þurfum að bera aðstæður saman bæði hvað varðar tekjuskatt á fyrirtæki, tryggingagjald og virðisaukaskatt. Þegar það er allt lagt saman tel ég að við séum fullkomlega samkeppnishæf og ég tek þau mál mjög alvarlega.

Hvað varðar ríkisstyrk sem hv. þingmaður vildi fá nánari svör frá mér um þá sagði ég áðan að ég teldi eðlilegt að ákveðnum ívilnunum væri beitt þegar ætlunin væri til að mynda að örva tilteknar atvinnugreinar eða koma með ákveðna innspýtingu í þær. Hvað viljum við kalla ívilnanir? Viljum við kalla þær ríkisstyrki? Það er kannski skilgreiningaratriði, en ég kýs að kalla það ívilnanir því að ég lít ekki þannig á að það sé nákvæmlega sami hluturinn þegar við beitum skattafrádrætti til ívilnunar eða beinum ríkisstyrk.