141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[17:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá málefnalegu umræðu sem frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2013 hefur fengið hér. Frumvarpið ber í sér þau ánægjulegu tíðindi að heildarjöfnuður ríkissjóðs er í augsýn og því hefur almennt verið vel tekið. Ég mun nú bregðast við helstu athugasemdum sem fram komu við almenna umræðu um frumvarpið.

Sumir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa haldið því fram að þó að frumvarpið sé að mörgu leyti jákvætt mætti gera enn betur. Það er auðvelt að segja það, virðulegi forseti, því að vafalaust má alltaf gera betur í hvaða verki sem er og alveg sama hver það vinnur.

Fólkið í landinu hefur þurft að þola margt frá hruni, ekki aðeins skerðingu kaupmáttar vegna gengisfalls krónunnar eða mikillar hækkunar húsnæðislána. Það hefur heldur ekki farið varhluta af niðurskurði í ýmsum málaflokkum sem snerta alla á einn eða annan hátt. En sú leið sem ríkisstjórnin hefur farið við endurreisnina getur talist sanngjörn. Leitast hefur verið við að dreifa þeim byrðum með réttlátum hætti sem urðu til vegna þess sem gerðist á árunum fyrir hrun og við hrunið. Kjör allra versnuðu vegna bankahrunsins en kjör þeirra sem minna hafa og þeirra sem helst þurfa á þjónustu ríkisins að halda hafa verið varin eins og kostur er með öllum aðgerðum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, aðgerðum sem unnið hafa á fjárlagahallanum og komið okkur í jákvæða stöðu á ný.

Einhverjir hv. þingmenn hafa haldið því fram í umræðunni að verið sé að fegra útlitið með því að taka ekki tillit til hugsanlegra framlaga til styrkingar á eiginfjárgrunni Íbúðalánasjóðs. Ég árétta þá staðreynd að það skiptir engu máli fyrir afkomu ríkissjóðs á rekstrargrunni hversu hátt hugsanlegt eiginfjárframlag mun vera þar sem jafnstór eign myndast á móti. Starfshópur vinnur að því að meta stöðu sjóðsins og á ég von á því að hann skili tillögum sínum á næstu vikum. Verði sú ákvörðun tekin að styrkja eigið fé sjóðsins með framlögum úr ríkissjóði verður það gert í ár og tekin um það ákvörðun með fjáraukalögum ársins í ár en ekki í fjárlögum ársins 2013.

Ég benti á það í framsöguræðu minni sem ég flutti í gær að nú væri heppilegur tími til að hækka aftur virðisaukaskatt á hótelþjónustu og tek undir niðurstöðu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands þar sem það mál var skoðað að beiðni fjármálaráðuneytisins. Ég skora á hv. þingmenn að lesa skýrslu Hagfræðistofnunar áður en þeir láta stór orð falla í umræðunni um áhrif hækkaðs virðisaukaskatts á hótel og gistiheimili. Eftir þann lestur má flestum vera ljóst að afleiðing þeirrar hækkunar er þjóðhagslega jákvæð. Reikna má með að við þá verðhækkun sem verður á hótelkostnaði í kjölfarið dragi lítið eitt úr fjölda ferðamanna en fjölgunin verður samt sem áður umtalsverð eins og fram hefur komið í umræðunum. Fjölgunin undanfarin ár hefur verið mjög mikil ár hvert og yfir 15% í fyrra og það sem af er ári. Ég fór yfir það í ræðu minni í gær að sterk rök hafi komið fram fyrir því að lengja aðlögunartímann að breytingunni og mun það verða tekið til skoðunar á næstu dögum.

Hér var einnig nefnt í umræðunni að ríkisstjórnin hafi staðið í vegi fyrir fjárfestingum í orkufrekum iðnaði. Það er fjarstæða sem ekki stenst neina skoðun. Einn hv. þingmaður gekk svo langt að bendla ríkisstjórnina við vandkvæði við orkuöflun fyrir álver í Helguvík. Varla þarf að benda hv. þingmönnum á þá staðreynd að samningsaðilinn HS Orka er ekki í ríkiseigu heldur í meirihlutaeigu kanadísks fjárfestingarfélags. Deilur þessara aðila eru ekki á forræði íslenska ríkisins en vonir standa til að samkomulag þeirra á milli náist sem fyrst. Þekkt er að erlendir fjárfestar halda að sér höndum á meðan óvissa er um efnahagsástand í löndunum í kringum okkur.

Frú forseti. Í fjárlagafrumvarpinu eru mörg mál sem stuðla munu að hagvexti og fjölbreytni í atvinnulífinu. Til marks um nýja sókn fram á veg eftir efnahagsáfallið er fjárfestingaráætlun fyrir Ísland sem ríkisstjórnin kynnti í vor og fjallað er um í fjárlagafrumvarpinu. Áætlunin, sem miðast við árin 2013–2015, er sett fram með það að markmiði að auka atvinnusköpun, ýta undir hagvöxt og fjölga atvinnutækifærum, en það er einmitt það sem tryggja þarf framgang á næstu mánuðum. Kom það fram í umræðunni og eru hv. þingmenn sammála um það.

Í umræðunni deildu þingmenn áhyggjum með þeirri sem hér stendur af skuldastöðu ríkissjóðs. Skuldirnar eru háar, þær jafngilda um 85% af vergri landsframleiðslu en þær eru ekki ósjálfbærar. Þegar litið er á skuldastöðuna er líka mikilvægt að horfa til þess að hrein staða ríkissjóðs, þ.e. þegar tekið hefur verið tillit til útistandandi krafna og handbærs fjár, er um 45% af vergri landsframleiðslu.

Háum skuldum fylgja háar vaxtagreiðslur. Leiðin til að draga úr þeim er að gera ríkissjóði kleift að greiða niður skuldir. Það verður gert með því að tryggja hagvöxt, tekjur af auðlindum þjóðarinnar og aðhaldssömum ríkisrekstri til framtíðar. Undanfarin ár hefur mikil vinna farið í að endurheimta lánstraust á alþjóðlegum mörkuðum til að tryggja efnahagslegt sjálfstæði landsins. Samkvæmt langtímaáætlun í ríkisfjármálum mun ríkissjóður verða rekinn með afgangi á komandi árum og þá munu skapast tækifæri til að nýta rekstrarafgang til að lækka skuldir sem og með því að nýta andvirði af sölu eigna í þeim tilgangi.

Tveir hv. þingmenn sem til máls tóku um fjárlagafrumvarpið 2013 gagnrýndu þá ákvörðun að fyrri markmiðum um jöfnuð í ríkisfjármálum hafi á sínum tíma verið seinkað um eitt ár.

Rétt er að rifja upp að þegar gengið var til samstarfs við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn stóðu vonir alþjóðasamfélagsins til þess að áhrif kreppunnar á heimsvísu yrðu vægari en þau reyndust síðan vera. Sem dæmi má nefna að haustið 2010 spáði AGS að hagvöxtur í þróuðum ríkjum yrði 2,6% í ár en nú reiknar sjóðurinn með að hann verði 1,4%. Á evrusvæðinu gerði sjóðurinn ráð fyrir hagvexti upp á 1,3% á þessu ári en nú reiknar hann með samdrætti upp á 0,3%.

Ísland er útflutningsland og gangur hagkerfisins hér helst óhjákvæmilega í hendur við þróun mála í umheiminum. Þrátt fyrir óhagstæða þróun í helstu viðskiptalöndum okkar hefur okkur tekist að halda stöðugum hagvexti á síðustu missirum og því ættum við öll að fagna.

Í skýrslu um áætlun í ríkisfjármálum fyrir árið 2012–2015, sem kom út jafnhliða fjárlagafrumvarpinu í fyrra, er farið yfir áform um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Með endurskoðaðri ríkisfjármálaáætlun er aðlögunarferlinu hliðrað um eitt ár en markmiðin um sjálfbæran ríkisrekstur standa óbreytt.

Með endurskoðuninni eru færð rök fyrir miðbæru aðlögunarferli.

Í fyrsta lagi er rakið að skuldastaða ríkisins sé mun betri en upphaflegar áætlanir miðuðu við. Til dæmis hafi kostnaður ríkisins vegna endurfjármögnunar bankakerfisins verið mun minni en áætlað hafði verið.

Í öðru lagi hafi framgangur áætlunarinnar verið góður og halli á ríkisrekstrinum á greiðslugrunni verið mun minni árið 2009 og 2010 en búist var við.

Í þriðja lagi segir að útlit sé fyrir að hagvöxtur fari hægar af stað en gert hafi verið var ráð fyrir og því hert aðhaldsstig ríkisfjármálanna haft of mikil samdráttaráhrif og þar með unnið gegn efnahagsbatanum.

Í fjórða lagi segir að ekki sé útlit fyrir að hlutfall skatttekna af landsframleiðslunni hækki í sama mæli og miðað hafi verið við í fyrri áætlun.

Í fimmta lagi segir að traust á ríkisfjármálum og þeirri stefnumörkun sem hún styðst við hafi aukist verulega. Jafnframt segir að betri staða ríkissjóðs hafi gert það betur kleift að hækka bætur almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga með hliðsjón af kjarasamningum og almennum vinnumarkaði auk þess sem gerðir hafi verið kjarasamningar við félög opinberra starfsmanna um sambærilegar hækkanir. Þessar hækkanir séu talsvert meiri en reiknað hafi verið með í fyrri áætlun.

Þetta eru helstu rökin fyrir endurskoðaðri áætlun sem ég tel að hafi verið sjálfsögð og til góðs.

Fyrr á þessu ári gaf ríkissjóður út skuldabréf á alþjóðlegum mörkuðum til tíu ára. Fylgdi það í kjölfar jafnstórrar útgáfu til fimm ára sem gerð var í fyrra. Ríkissjóður hefur með þessu sannað fyrir sjálfum sér, ef orða má hlutina þannig, sem og umheiminum að hann hafi aftur aðgang að alþjóðlegum lánsfjármörkuðum og njóti þar lánstrausts. Sú staðreynd er mikils virði og ef til vill mun meira virði en virðist í fyrstu. Þjóð sem treysta þarf á neyðarlán frá alþjóðastofnunum og nágrannalöndum er í vondum málum. Í þeirri stöðu vorum við eftir efnahagshrunið en það erum við ekki lengur því að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur með aðgerðum sínum unnið Íslandi alþjóðlegt traust að nýju.

Hér eru gjaldeyrishöft, því miður. Við viljum losna við þau sem fyrst en með sem minnstum neikvæðum áhrifum fyrir almenning og efnahagslífið. Aðgangur ríkissjóðs að alþjóðlegum fjármálamörkuðum er ein mikilvægasta forsenda þess að það takist. Árangur í ríkisfjármálum hefur ekki síst gert þann aðgang að veruleika.

Hv. þingmenn lýstu flestir í ræðum sínum ánægju sinni með þau áform að hækka barnabætur verulega enda hafa allar greiningar sýnt að nú sé sú ráðstöfun mikilvæg. Það stefnumið að bæta hag barnafjölskyldna sýnir sig í frumvarpinu með því að barnabætur munu hækka verulega á árinu 2013, en þær eru skilvirkt tæki til lífskjarajöfnuðar. Vaxtabótakerfið verður eflt, sem mun líka skila sér til þessa hóps. Síðast en ekki síst verða greiðslur á fæðingarorlofi auknar og áætlað er að orlofið verði lengt í 12 mánuði þegar fram líða stundir. Allar þessar aðgerðir munu styrkja velferð barna hér á landi.

Frú forseti. Nú er umræðum um fjárlagafrumvarp í fyrsta skipti hagað þannig að fagráðherrar mæla sérstaklega fyrir málum á fagsviði sínu í kjölfar almennrar umræðu sem innleidd er af fjármálaráðherra. Ég tel að sú breyting sé til góðs og vona að haldið verði áfram með þá þróun á skipulagi umræðu í þinginu. Þá á ég við að svipað skipulag geti gert umræðu um fleiri mikilvæg mál markvissari og um leið skilvirkari.