141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[17:49]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að taka undir með hæstv. fjármálaráðherra að ég tel að sú nýbreytni sem var höfð núna, að hafa fagráðherrana hér og þeir fjalli um sinn málaflokk í umræðunni á seinni deginum, hafi reynst vel og það sé mikilvægt að hafa áframhald á þeirri tilhögun. En ég verð þó að viðurkenna, virðulegi forseti, eftir að hafa hlustað á þessa umræðu sem hefur staðið yfir í tvo daga, að margir hverjir eru komnir í prófkjörsstellingar og tala mikið um þann mikla árangur sem náðst hefur í ríkisfjármálum og segja að nú sé hægt að fara að auka aldeilis við útgjöldin. Ég ætla ekki að nota þennan ræðutíma minn í að fara yfir það og hrekja það. Hins vegar vil ég bara tala um blákaldar staðreyndir sem blasa við þeim sem taka við eftir kosningarnar 2013 og náttúrlega núverandi stjórnvöldum.

Það sem liggur fyrir er að skuldir ríkissjóðs í árslok 2011 voru 1.544 milljarðar. Þar fyrir utan eru 370 milljarðar lífeyrisskuldbindingar. Við munum á næstu fjórum árum greiða 370 milljarða í vexti. Ekki eru neinar deilur um það hversu mikilvægt er að ná jöfnuði í ríkisfjármálum til að geta farið að greiða niður skuldir. Ég vil benda á að öll umræðan snýst um það að ná þeim tökum að við gerum fjárlögin sjálfbær. Mjög lítið er talað og fáir tala um það að þegar því er náð eigum við eftir að greiða niður alla þessa mörg hundruð milljarða. Þess vegna er gífurlega mikilvægt að menn geri sér grein fyrir hversu mikilvægt það er að við förum að greiða niður skuldir ríkisins.

Ég hef heyrt mjög fáa hafa áhyggjur af því að fara í að selja eignir ríkisins til að fara í frekari fjárútlát í stað þess að greiða niður skuldir. Almenn skynsemi segir manni það að þegar eignir eru seldar þá er skynsamlegra að greiða niður skuldir.

Mig langar að minna á að frumvarp til fjárlaga 2013 er auðvitað markmið, en síðan blasa við þær staðreyndir að þau ganga ekki eftir. Þá er ágætt að rifja það upp að árin 2010 og 2011 var hallinn umfram það sem gert var ráð fyrir, eftir að fjárlögin lágu fyrir, annars vegar um 25 milljörðum meiri árið 2010 og hins vegar um 30 milljörðum árið 2011. Inni í þessu eru líka einskiptisaðgerðir svokallaðar. Ég vil minna á að í fjárlögum ársins 2012 er undirliggjandi halli á útgjöldum sem mér er kunnugt um, samkvæmt síðustu tölum sem komu frá fjármálaráðuneytinu, í kringum 11,5 milljarðar. Inn í það vantar líka ákveðna hluti sem við höfum verið að fjalla um í þessari umræðu. Eitt er að hafa ákveðin markmið og annað er að hafa ákveðna niðurstöðu. Það er jú einfaldlega niðurstaðan sem ræður því hvað skattgreiðendurnir þurfa að borga. Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé nauðsynlegt að þingið taki höndum saman um það hvernig staðið skuli að því að greiða niður skuldir ríkissjóðs, og þá skiptir engu máli hvaða stjórnvöld verða. Ég held að mikilvægt sé að þingið taki höndum saman og geri áætlun um það, og bindi í raun og veru þingið að því leyti til, hvernig á að greiða niður skuldir ríkissjóðs því það er ekki hægt að leggja það á framtíðarkynslóðir.

Þessi frábæri árangur sem alltaf er verið að tala um er á þann veg að á síðasta ári jukust skuldir ríkissjóðs um 200 milljarða en að nettó um 100 milljarða, svo maður haldi nú öllu til haga. Þær jukust um 100 milljarða. Og mjög margir eru ánægðir með það. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að haldið verði áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið í hv. fjárlaganefnd. Samstaða hefur verið um það þvert á flokka hversu mikilvægt það er að breyta vinnubrögðum og það er gríðarlega mikilvægt að breyta þeim.

Við heyrðum í ræðum sumra ráðherra í dag komið inn á veikleika sem eru nú þegar í frumvarpinu og það sem þeir gera ekki mikið með, þ.e. þá fyrirvara sem eru samkvæmt fjárfestingaráætluninni. Þeir munu fara í þau verkefni sem þar eru talin upp þrátt fyrir þann fyrirvara sem er í frumvarpinu um að þær áætlanir megi ekki raska því að jöfnuður náist í ríkisfjármálum. Hér komu fagráðherrar og sögðu: Ég fer í þessar framkvæmdir.

Þá langar mig að rifja það upp að ekki er heldur hægt að bjóða okkur upp á það lengur að þegar við í fjárlaganefnd vorum að fara yfir framkvæmd fjárlaga fyrir árið 2012 kölluðum við fyrir nefndina þrjá ráðherra sem fóru yfir málaflokka sína. Hver voru skilaboð hæstv. ráðherra? Ég skynjaði það þannig og ég held að margir aðrir hafi gert það líka, þeir komu og sögðu einfaldlega við nefndina, sem átti að fylgja eftir framkvæmd fjárlaga árið 2012 og er það hlutverk hennar í þinginu: Fjárlögin eru einfaldlega vitlaus. Fjárlögin eru bara vitlaus. Það voru skilaboðin. Þess vegna verður að taka á þessum hlutum og þróa það starf sem unnið hefur verið að í hv. fjárlaganefnd, þó svo að ég sé ekki alls kostar sáttur við hvernig það hefur gengið oft og tíðum gagnvart framkvæmdarvaldinu þótt eining hafi verið í nefndinni sjálfri.

Eitt af því sem mig langar að nefna sem kemur núna inn í ríkisreikning 2011 sem mér finnst vera mjög alvarlegt mál. Þar eru settir 4,9 milljarðar í afskriftir hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins — og að hugsa sér það þar sem stærsta vandamálið er skuldir ríkissjóðs. Við þurfum ekki að deila um það. Menn geta haft mismunandi fagrar ræður um það hversu vel hefur gengið eða illa. Aldrei, aldrei einu einasta orði hefur það verið nefnt í hv. fjárlaganefnd, ekki einu orði. En það er jú akkúrat hlutverk hv. fjárlaganefndar að fylgjast með framkvæmd fjárlaga. Þarna hverfa 5 milljarðar út úr ríkissjóði án þess að það hafi verið kynnt fyrir þinginu, bara sisona. Þetta eru auðvitað vinnubrögð sem verða að breytast. Þetta getur ekki gengið svona lengur. Fjárlögin eiga að gilda og menn verða, sama úr hvaða flokki hæstv. ráðherra kemur og hver hann er, að fara eftir þeim og taka verður á mörgum stórum þáttum til að styrkja þingið og til að fylgja fjárlögunum eftir. Og þá verðum við að vera sammála um að gera það og veita þinginu þær heimildir og þau ráð sem það hefur og hætta svona vinnubrögðum.

Eitt er það sem var í umræðunni áðan þar sem kemur fram að einstaka fjárlagaliðir eru kannski 500 millj. kr. fram yfir á þessu ári og 600 millj. á næsta ári af því að það gilda svokölluð sérlög. Hvernig getur það verið að einhver lög önnur taki fram fyrir heimildirnar í fjárlögum? Þetta eru hlutir sem verður að breyta. Það er lífsnauðsynlegt að breyta þessu ef við ætlum að ná tökum á ríkissjóðnum. Ef við ætlum að hafa þetta áfram eins og það hefur verið að þróast þá getum við bara gleymt því. Þá náum við ekki tökum á ríkisfjármálunum. Hættan er sú að pólitíkusarnir sem eru að fara í framboð muni hafa minni áhyggjur af því hversu mikilvægt það er að ná tökum á ríkisfjármálunum. Þeir munu kannski hafa hugsanlega meiri áhyggjur af því hvernig þeir nái endurkjöri. Þess vegna er mikilvægt að þingið taki sig saman og geri áætlun um það hvernig hægt er að ná niður skuldum ríkissjóðs. Það er allt of lítið rætt um skuldirnar að mínu mati í þessari umræðu. Við staðnæmumst alltaf við að ná jöfnuði en þá eigum við eftir að greiða kannski upp undir 2.000 milljarða. Þess vegna er mikilvægt að við tökum þessa umræðu eins og hún er.

Það er líka mjög mikilvægt að þróa og klára það sem hv. fjárlaganefnd hefur verið að vinna að, að taka svokallaðar markaðar tekjur og líka hluta af ákveðnum sértekjum og færa það inn í ríkissjóð og síðan þannig að það sé alveg á hreinu hver fjárlagaheimildin er fyrir viðkomandi stofnun. Það er óþolandi að á sama tíma og verið er að skera niður hafi stofnanir, t.d. í heilbrigðisþjónustunni, ekki aðgang að sértekjum. Við erum öll sammála um að við viljum hlífa velferðarkerfinu. En á sama tíma er skorið niður hjá stofnunum sem geta náð sér í sértekjur, jafnvel inni á milli ráðuneyta, upp á tugi og hundruð milljóna og aukið umsvif sín þannig um 15% og jafnvel upp í 20% miðað við það sem gert er ráð fyrir í fjárlögum og tekist er á um í þingsölum. Það er því mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að hv. fjárlaganefnd og þingið í heild sinni þrói þau vinnubrögð áfram sem stuðla að því að við munum einhvern tíma ná ríkisfjármálunum í það horf sem þau þurfa að vera.