141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[17:59]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil í upphafi þakka fyrir þessa umræðu sem hefur farið fram í dag og í gær um fjárlagafrumvarp næsta árs. Ég tel að þetta nýja form sem við erum að reyna að feta okkur eftir sé að reynast okkur ágætlega, ekki síst í dag þar sem reynt er að afmarka umræðuna við einstaka þætti og málaflokka í ríkisfjármálunum. Í heildina held ég að þetta hafi gefist okkur ágætlega í bili og jafnvel megi þróa þetta frekar inn í umræðuna í haust, jafnvel við 2. umr., að við reynum að skipta henni eins og við höfum gert hér eftir einstökum málaflokkum. Ég tel að þannig skili umræðan sér betur út í samfélagið og það verði auðveldara fyrir okkur að taka þátt í henni en verið hefur undanfarin ár, í það minnsta þau ár sem ég hef verið á þingi. Ég ber miklar vonir til þessara breytinga á umræðum um fjárlagafrumvarp og vonast til að þær verði sömuleiðis teknar til fyrirmyndar varðandi önnur stærri mál.

Það sem mér finnst hafa komið fram í þessari umræðu bæði í dag og í gær er klassískur ágreiningur á milli stjórnar og stjórnarandstöðu og þeirra stjórnmálaflokka sem eru ríkisstjórnarmegin og hinna sem í stjórnarandstöðu eru. Ég verð reyndar að viðurkenna að ég er aðallega að tala um Sjálfstæðisflokkinn, virðulegi forseti. Ég hef ekki orðið var við Framsóknarflokkinn í dag. Veit einhver um þingmenn Framsóknarflokksins? Ég hefði gjarnan viljað hafa þá í þessari umræðu líka því að þrátt fyrir allt skiptir máli hvað Framsóknarflokkurinn hefur að segja í umræðu um fjárlagafrumvarpið og fjármál ríkisins. Ég hef saknað þess hve lítið hefur heyrst frá þeim í umræðunni en ég vona að Eyjólfur hressist þegar líður á haustið hvað þetta varðar.

Ágreiningurinn snýst um það hvernig eigi að ná tökum á ríkisfjármálunum, ná jöfnuði í ríkisfjármálunum og hver aðferðafræðin eigi að vera. En ég er satt að segja ekkert mjög öruggur á því hvað það er sem Sjálfstæðisflokkurinn vill gera. — Og gengur þá þingflokksformaður Framsóknarflokksins í salinn og ég býð hann velkominn í umræðuna. Ég er satt að segja ekki viss um hvað ég á að halda. Í umræðum um fjárlagafrumvörp undanfarinna ára hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins barist mjög hart gegn niðurskurði í ríkisútgjöldum. Um það vitna mörg ummæli í ræðum þeirra frá síðustu þrem árum. Í umræðum um fjárlagafrumvarp 2010 segir hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, sem er reyndar ekki hér í þessari umræðu, um niðurskurðaráformin eða samdrátt í ríkisútgjöldum, með leyfi forseta:

„Vissulega er afar mikilvægt að vinna bæði hratt og örugglega í því að ná tökum á skuldavanda ríkisins og vinna að því að lækka gríðarlegar vaxtagreiðslur ríkissjóðs. En öllu má ofgera …“

Öllu má ofgera, bætir hv. þingmaður við. Ef ég man rétt var slagorð sjálfstæðismanna í umræðunni þá að rústa þessu, rústum fjárlagafrumvarpinu. Það var vegna þess að verið var að draga úr útgjöldum.

Í umræðum um fjárlagafrumvarp ársins 2011 skorar hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins á ríkisstjórnina, í 1. umr. og segir orðrétt, með leyfi forseta: „Ég skora á ríkisstjórn Íslands að endurskoða tillögur sínar um niðurskurð.“

Og það var auðvitað bætt um betur í umræðum um fjárlög gildandi árs þar sem fjallað var ítarlega um að það þyrfti að greina sérstaklega hvaða áhrif hrunið hefði haft og samdráttur í ríkisútgjöldum á sem flesta þætti samfélagsins, sem ég er sammála, og hnykkt enn frekar á því að draga ætti úr niðurskurðaráformum. Þó hefur sá samdráttur, eins og ég nefndi í ræðu minni í gær, einungis verið um helmingur af því sem hefur þurft að gera, á móti hafa komið nýjar tekjur. Ég ítreka spurningar mínar frá því í gær til þeirra sem vilja ganga lengra, þeir verða að svara því hvar þeir hefðu þá tekjur, hvar þeir ætli að taka þá 136 milljarða sem við höfum aflað með ýmsu móti á móti niðurskurðartillögunum, á móti samdrætti í útgjöldum á undanförnum árum. Hvar ætla menn að taka þær? Menn hafa gefið fyrirheit um að slíkt eigi að gera, það eigi að afnema allar þær tekjur sem ríkið hefur aflað sér á undanförnum árum til að mæta hruninu.

Það eru auðvitað hinar bláköldu staðreyndir sem við okkur blasa. Ég er ósammála því sem hér hefur verið sagt, ef ég man rétt nefndi hv. þm. Ásbjörn Óttarsson það áðan, að enginn tali um að það þurfi að greiða niður skuldir. Það er einmitt meginmarkmiðið í því sem við erum að gera, að gera ríkissjóð færan til að greiða niður skuldir jafnhliða því að halda samfélaginu gangandi. Við höfum talað um að reyna að breyta vöxtum í velferð og hætta að greiða vexti og halda uppi velferðinni í staðinn. En afleiðingar þess sem hér gerðist haustið 2008 munu vara árum saman fyrir íslenskt þjóðfélag, jafnvel áratugum saman vegna þess hve hrikalegt áfall þetta var og hversu yfirgripsmikið og stórt verkefni það er að greiða niður skuldirnar eftir það áfall sem á okkur dundi. Þangað til munum við þurfa að líða fyrir það.

Ég hef sömuleiðis iðulega spurt mig að því í þeirri fjárlagavinnu sem ég hef tekið þátt í þetta kjörtímabil hvað hafi orðið um alla fjármunina sem áttu að streyma hér um götur og stræti á sínum tíma. Hvað varð um peningana? Fóru þeir í framhaldsskólana? Nei, það er víst ekki. Samkvæmt þeim upplýsingum sem við fengum í fjárlaganefnd haustið 2009, ef ég man rétt, var niðurskurður í útgjöldum til framhaldsskóla í aðdraganda hrunsins. Það var dregið úr fjárveitingum í aðdraganda hrunsins. Peningarnir voru ekki þar. Fóru þeir í Landspítalann, í tækjakaup? Nei, þeir fóru ekki í Landspítalann. Landspítalinn var rekinn með halla upp á þriðja milljarð þegar við tókum við 2009. Peningarnir fóru ekki í Landspítalann eða í tækjakaup eins og forstjóri Landspítalans hefur bent á í ágætum pistli sínum á heimasíðu sjúkrahússins. Tækin og vandræðin þar er uppsafnaður vandi til tíu ára. Það eru tíu ár síðan fór að gæta vanda við endurnýjun á búnaði og tækjum á Landspítalanum. Af hverju var ekki fjallað um það hér? Af hverju voru ekki skrifaðar fréttir um það á árunum 2005, 2006 eða 2007 að það væru vandræði í tækjakaupum á Landspítalanum? Tækin væru jafnvel runnin út á tíma. Fóru peningarnir þangað? Nei, þeir fóru ekki þangað, það er algerlega ljóst. Var þeim eytt í vegagerð á Vestfjörðum? Ég held ekki. Þingmenn Norðvesturkjördæmis geta kannski upplýst okkur um það. Nei, peningarnir fóru ekki í vegagerð á Vestfjörðum. Það er herjað á það núna, að sjálfsögðu, enda var sá landsfjórðungur undir hvað það varðar á sínum tíma.

Peningunum var ekki eytt í innviði samfélagsins eða til að styrkja samfélagið innan frá. Það kom berlega í ljós þegar allt hrundi að fjármunina vantaði. Hvað þetta varðar er ég algerlega sammála því sem kom fram hjá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni áðan, það verður að grípa til enn frekari aga í ríkisfjármálum en hér hefur ríkt árum og áratugum saman. Við hv. þingmaður og félagar okkar í fjárlaganefnd á þessu tímabili höfum öll verið sammála um það. Við höfum gripið til ýmissa aðgerða. Við höfum reynt að hafa mun meira að segja í eftirliti með ríkisfjármálum og útgjöldum ríkisins en áður hefur þekkst þar sem agaleysi var algert, alveg fullkomið. 75 milljarðar umfram fjárlög síðustu þrjú árin fyrir hrun. Var einhver agi á því? 75 milljarðar umfram fjárlög hvers árs á þremur árum. Hvers konar efnahagsstjórn var það, virðulegur forseti?

Við leggjum nú fram fjárlagafrumvarp sem ber vitni um þann árangur sem hefur náðst. Það er ekki hægt að afneita því að hér hefur orðið viðsnúningur í ríkisfjármálum á þremur árum. Það er ekki hægt að gera það með neinni sanngirni. Við skulum deila um aðferðafræðina ef okkur langar til þess, en hér hefur orðið árangur í ríkisfjármálum sem við skulum halda í og byggja á. Ég vonast eftir góðu samstarfi í fjárlaganefnd við þá vinnu sem fram undan er í haust.