141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[18:11]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Við getum deilt um það í hversu marga áratugi eða margar aldir áhrifa hrunsins mun gæta. Ég held að það sé óumdeilt, sama hvernig allt hvolfist og fer, að áhrif hrunsins munu verða veruleg á lífskjör í landinu í langan tíma, aldarfjórðung hið minnsta sem tekur að vinna úr því að fullu leyti, bæði í ríkisfjármálum sem og fjármálum heimila og fyrirtækja. Við sjáum það á því sem gerðist á Norðurlöndum á sínum tíma, ég nefni bara Svíþjóð og Finnland, þar sem menn urðu fyrir verulegum efnahagsáföllum í byrjun 10. áratugarins. Það voru kannski ekki sambærilegir hlutir og hér en nánast, í þá áttina. Þar eimir enn af því sem gerðist og þar eru afleiðingarnar sums staðar enn að koma fram vegna þess að menn gripu til rangra aðgerða. Menn gerðu rangt í þeim aðgerðum sem þeir fóru í til að ná tökum á efnahagsvandanum, samanber í Finnlandi þar sem var farið af mikilli hörku í að skera niður í samneyslunni, í skólunum, í sjúkrahúsunum o.s.frv. sem Það hefur síðar komið fram á öðrum stöðum í samfélaginu. Ég held að við getum öll verið sammála um að þetta var ekki góð aðferð en þetta er samt aðferð sem einhverjir hér inni kalla eftir með því að vilja fara í frekari niðurskurð, þótt ég segi það ekki berum orðum. Hvar í ósköpunum ætla þeir að gera það annars staðar en þar sem útgjöldin eru hvað mest?

Varðandi samningana um raforkuskattinn þá er ég sammála því að það verði að finna sanngjarnar leiðir til að þeir aðilar sem þar um ræðir geti komið að því að fjármagna það sem upp á vantar ásamt öllum öðrum í samfélaginu. Mér finnst varla tækt að undanskilja þá frá því að leggja sitt af mörkum. (Forseti hringir.) Við munum leysa úr því. Ef þeir samningar eru útrunnir munum við hefja viðræður við þá aftur eða framlengja þá sem þar eru.